Helsinki: Geislavirknin kom úr kjallaranum

09.03.2016 - 01:26
Mynd með færslu
STUK - Geislavarnir Finnlands. Vísindamenn stofnunarinnar furðuðu sig mjög á skyndilegri og mikilli aukningu geislavirku samsætunnar sesíum 137, sem mælir þeirra á þaki stofnunarinnar nam fyrir helgi. Uppspretta hennar reyndist í kjallara stofnunarinnar.  Mynd: YLE
Vísindamenn Geislavarna Finnlands hafa nú fundið uppsprettu geislavirks sesíums, sem fannst í mjög auknum mæli í andrúmslofti höfuðborgarinnar Helsinki fyrir helgi: Það er upprunnið úr kjallara byggingarinnar, sem hýsir stofnunina sjálfa. Í sömu byggingu er fyrirtæki nokkuð með starfsemi sína, sem sérhæfir sig í meðferð lítillega geislavirks úrgangs á borð við reykskynjara og lækningavörur ýmiskonar. Frá þessu er greint í finnskum fjölmiðlum.

Uppsprettan í kjallaranum, mælirinn á þakinu

Tarja K. Ikäheimonen, forstjóri Geislavarna Finnlands, segir fullvíst að uppsprettan sé einhversstaðar í kjallaranum. Nú verði allt kapp lagt á að finna og einangra það sem geislaði svo mjög að gildi cesíums 137 mældist þúsund sinnum meira í höfuðborginni á fimmtudag og föstudag en á venjulegum degi. Mælirinn sem nam aukninguna er á þaki byggingarinnar.

Búið er að innsigla kjallara og bílakjallara byggingarinnar og nú stendur yfir leit þar og í næsta nágrenni. Ikäheimonen leggur áherslu á að þótt geislavirknin hafi mælst margföld á við það sem venjulegt getur talist hafi ekki og sé ekki nokkur manneskja í hættu af þeim völdum. Það gildi einnig um starfsfólk stofnunarinnar og fyrirtækisins, sem væntanlega er ábyrgt fyrir geislavirkninni. 

Þessi mikla og skyndilega aukning á geislun frá samsætunni sesíum 137 þótti furðu sæta og vísindamenn fóru afar varlega í allar vangaveltur um mögulegar skýringar. Það dró ekki úr furðu manna, að hvergi annarstaðar í Finnlandi mældist slík aukning. Á því hefur nú fengist nærtæk skýring.