„Helgin verður hvítari en Óskarinn“

Erlent
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot

„Helgin verður hvítari en Óskarinn“

Erlent
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
22.01.2016 - 09:48.Bjarni Pétur Jónsson
Óveðrið Jónas gengur yfir austurströnd Bandaríkjanna um helgina og búist er við töluverðri snjókomu. „Helgin verður hvítari en Óskarinn“, segir á forsíðu New York Post. Enginn blökkumaður er tilnefndur til óskarsverðlauna í ár, ekki frekar en í fyrra, og fjöldi leikara og tónlistarmanna hefur stigið fram og gagnrýnt akademíuna fyrir tilnefningarnar.

Ritstjórar New York Post gripu tækifærið og vöktu um leið athygli á því að enginn blökkumaður er tilnefndur til óskarsverðlauna. Málið er sérstaklega pínlegt fyrir Cheryl Boone Isaacs, forseta Akademíunnar, sem sjálf er blökkukona og hefur reynt að beita sér fyrir breytingum. Rúmlega 300 nýjir félagsmenn voru nýlega teknir inn í akademíuna til að auka fjölbreytni hennar en það virðist ekki hafa gengið eftir. 

Hjónin Jada Pinkett og Will Smith ætla ekki að vera viðstödd hátíðina en þau hafa gagnrýnt tilnefningarnar í ár ásamt mörgum fleirum. Will Smith þótti líklegur til að fá tilnefningu fyrir leik sinn í myndinni Concussion sem gerist í heimi ameríska fótboltans. Leikstjórinn Spike Lee ætlar ekki að fara og margir fleiri hafa gagnrýnt akademíuna, meðal annars George Clooney, Lupita Nyong'o Reese Witherspoon og Chris Rock sem verður kynnir hátíðarinnar. Búist er við föstum skotum grínistans en Ricky Gervais, kollegi hans, lagði línuna á Twitter í vikunni. Þetta er annað árið í röð sem allir leikarar sem eru tilnefndir eru hvítir á hörund. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Sniðganga snjóhvítan Óskarinn

Mynd með færslu
Menningarefni

Óskarinn gagnrýndur fyrir að vera „hvítur“