Helgi Hjörvar vill formannsstólinn

19.02.2016 - 03:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Helgi Hjörvar, þinglokksformaður Samfylkingarinnar, ætlar að bjóða sig fram til formanns flokksins. Þetta staðfestir hann í viðtali við Fréttablaðið í dag. Hann hvetur jafnframt alla sem telja sig hafa erindi til að bjóða krafta sína fram.

Boðað hefur verið til landsfundar Samfylkingarinnar í vor, en engin nákvæm tímasetning hefur verið gefin út. Helgi segir í viðtalinu að hann telji að ástæða fylgishruns Samfylkingarinnar stafi af tvennu, stefnu flokksins og aðferðinni sem flokksmenn noti til að stunda pólitík.

Hann segir flokkinn þurfa að horfa framhjá upptöku evrunnar og hugsa hlutina upp á nýtt. „Við höfum verið að segja að allt sé ómögulegt og verði ómögulegt á meðan við höfum íslensku krónuna. Það verði allir bara að bíða eftir evrunni. En hún er ekkert að koma í náinni framtíð,“ segir Helgi. Nú verði flokkurinn að reyna að skapa bærileg vaxtakjör og fjármálamarkað fyrir ungt fólk og fólk með meðal- eða lægri tekjur. „Við þurfum að draga úr kostnaði við bankana, setja skorður við hvað má innheimta af fólki í þjónustugjöld. Taka upp verðtryggingarmálin og ég gæti haldið áfram. Taka afstöðu með fólkinu gegn fjármálafyrirtækjunum.“

Helgi segir í viðtalinu að Samfylkingin geti lært af Pírötum. Samræður hafa átt sér stað um samstarf á stuttu kjörtímabili að hans sögn, en hugmynd Pírata, ef þeir komast í stjórn, er að kosið verði um nýja stjórnarskrá og áframhald ESB-viðræðna á stuttu kjörtímabili.