Heitasti febrúar í sögu veðurmælinga

15.03.2016 - 01:32
epa04409895 An undated handout picture made available by NASA on 21 September 2014 shows a DHC-3 Otter in NASA's Operation IceBridge-Alaska surveying mountain glaciers in Alaska, USA. NASA researchers carried out three Alaska-based airborne research
Flugvél NASA í rannsóknarleiðangri yfir jöklum Alaska, sem bráðna hratt.  Mynd: EPA  -  NASA
Nýliðinn febrúar var sá heitasti sem um getur frá því veðurmælingar hófust, og fimmti mánuðurinn í röð, sem mánaðarhitamet var slegið. Meðalhitinn í febrúar var 1,35 Celsíusgráðum yfir meðalfebrúarhita á árunum 1951 - 1980, samkvæmt Goddard-stofnuninni, sem er undirstofnun bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA. Janúar síðastliðinn var 1.14 gráðum yfir janúarmeðaltali sama tímabils. Þessar tölur miðast við Jörðina alla. Sé aðeins horft til norðurhvelsins er hlýnunin enn meiri.

Á norðurhvelinu var febrúar 2,76°C hlýrri en meðalfebrúar á viðmiðunartímabilinu, og á norðurheimskautinu mældist meðalhitinn heilum 5,36 gráðum hærri en í meðalári. Veðurfræðingurinn Eric Holthaus segir þetta að líkindum mestu hlýindi sem verið hafa á þessum slóðum síðustu 1.000 árin.

Á Íslandi var febrúar aftur á móti sá kaldasti síðan 2002. Á veðurbloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings kemur fram að það sem hann kallar landsmeðalhiti í byggð hafi verið 0,7 stigum neðan meðallags áranna 1961 - 1990 og 1,9 stigun undir meðalhita síðustu tíu ára.  Í gærkvöldi féll hins vegar hitamet hér á landi, þegar hiti fór í 17,6 stig á Siglufirði. Er það mesti hiti sem mælst hefur á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar frá því mælingar hófust, segir Trausti.