Heita vatnið vó meira en fiskafli í heiminum

15.01.2016 - 10:33
Mynd með færslu
Mynd tekin á horni Lokastígs og Njarðargötu  Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Aldrei hefur verið notað meira af heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra. Notkunin var um 83 milljónir rúmmetra, 10% meiri en í hittifyrra samkvæmt upplýsingum Veitna og 4% meira en 2013 sem var metár. Langmest af vatninu fer í húshitun og notkunin veltur mikið á tíðarfari.

 Allan fyrri hluta ársins var heldur kalt í veðri og því mikið notað af heitu vatni. Í september var hlýrra og heldur minni heitt vatn streymdi til höfuðborgarbúa en notkunin var svipuð síðustu þrjá mánuði ársins. Í tilkynningu frá Veitum er bent á að heitavatn á öllu svæði þeirra hafi numið um 96 milljónum rúmmetra og vegið því meira en heildarfiskafli í heiminum öllum sem var  2013 um 94 milljónir  tonna. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV