Heimsmet hjá Kristínu í Malmö

14.02.2016 - 23:50
Mynd með færslu
Kristín Þorsteinsdóttir sundkona átti góðu gengi að fagna í Malmö um helgina.  Mynd: Íþróttasamband fatlaðra
Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir setti í dag heimsmet í 25 metra skriðsundi á alþjóðlegu sundmóti fatlaðra sem haldið var í Malmö í Svíþjóð. Kristín setti heimsmetið í S16 fötlunarflokki einstaklinga með downs heilkenni en hún synti á 17,20 sekúndum og bætti fyrra heimsmet um 17 hundraðshluta úr sekúndu, því fyrra met var 17,37 sekúndur.

Kristín sem er frá Ísafirði var skráð á mótið með vinum sínum úr Hafnafirði úr Íþróttafélaginu Firði, en félagið vann mótsbikarinn.

Tvö Evrópumet í gær

Í gær setti Kristín tvö Evrópumet í S16 flokknum. Annars vegar í 50 metra skriðsundi sem hún synti á 36,84 sekúndum en hún átti áður best 37,39 sekúndur. Hitt Evrópumetið setti hún í 25 metra baksundi sem hún synti á 22,04 sekúndum en best átti hún áður 22,96 sekúndur í þeirri grein.

Þetta er enn ein rósin í hnappagat Kristínar sem setti tvö heimsmet og átta Evrópumet á Evrópumóti einstaklinga með downs heilkenni í nóvember.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður