Heimsmarkaðsverð ekki lægra í 12 ár

11.01.2016 - 21:40
epa01315064 (FILE) A file photograph showing an undated handout photograph made available by AP Moller-Maersk of the Gorm field oil platform. The price for crudes produced by the Organization of the Petroleum Exporting Countries (OPEC) peaked above 104 US
 Mynd: EPA  -  AP MOLLER-MAERSK FILE
Heimsmarkaðsverð á olíu fór í dag niður fyrir 32 dollara á tunnu í fyrsta skipti í 12 ár. Á markaði í New York lækkaði verð á olíu til afgreiðslu í næsta mánuði um 1,7 dollara á tunnu, í 31,4 dollara, og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2003.

Tunna af Norðursjávarolíu komst í 31,5 dollara, sem er lægsta verð síðan í apríl 2004. Olíuverð hefur lækkað talsvert að undanförnu og er búist við að það lækki enn frekar þegar olía frá Íran kemur á markað. 

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í dag að það kynni að vera stutt í það að farið yrði að framfylgja kjarnorkusamningi stórveldanna og stjórnvalda í Teheran, en sérfræðingar segja að þá gæti offramboð á markaði farið að aukast enn frekar eða sem svaraði allt að einni milljón tunna af olíu á dag frá Íran.  

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV