Heimsins elsti karl dáinn

12.08.2017 - 04:57
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Yisrael Kristal, lést síðdegis á föstudag, 113 ára og 11 mánaða gamall. Hann var elsti karlmaður heims þegar hann lést, og líka elsti eftirlifandi helfararinnar, útrýmingarherferðar Nasista gegn Gyðingum, í heimstyrjöldinni síðari. Yisrael Kristal lést á heimili sínu í borginni Haífa í Ísrael. Hann fæddist 15. september 1903 í þorpinu Zarnov, sem þá tilheyrði rússneska keisaradæminu.

Hann var á barnsaldri þegar hann missti móður sína og faðir hans féll á vígvellinum í fyrri heimstyrjöldinni, þar sem hann barðist tilneyddur fyrir rússneska herinn.

Missti konu og börn í heimstyrjöldinni síðari

17 ára gamall fluttist Yisrael til Lodz, þar sem hann starfaði í sælgætisgerð fjölskyldunnar. Átta árum síðar kvæntist hann Chaja Geige Frucht, og eignaðist með henni tvær dætur. Eftir að Þjóðverjar hertóku Pólland var öll fjölskyldan lokuð inni i gettóinu í Lodz. Þar dóu dætur þeirra Chaju, og eftir að gettóið var jafnað við jörðu 1944 voru þau hjónin flutt til Auschwitz, þar sem Chaja dó líka en hann lifði naumlega af - hann var 37 kílógrömm að þyngd þegar Auschwitz var frelsað.

Eftir stríð sneri Yisrael aftur til Lodz og hóf rekstur fjölskyldufyrirtækisins að nýju. 1947 kvæntist hann seinni konu sinni, Batsheva að nafni, og eignaðist með henni tvö börn. Þau fluttu til Ísrael 1950, þar sem Yisrael hélt áfram að framleiða sætindi uns hann settist í helgan stein.

Aðallega heppni

Yisrael komst síðast í heimsfréttirnar í fyrra og það í tvígang. Annars vegar gekk hann í gegnum bar mitzvah-athöfnina, sem má kalla fermingu gyðinga, 100 árum á eftir áætlun. Hins vegar staðfesti heimsmetabók Guinness að hann væri elsti, þálifandi karlmaður í heimi. Við það tækifæri var hann spurður hverju hann þakkaði langlífið. Sagðist hann ekki vita neitt um það, líklega væri það þó aðallega heppni. „Margir mér gáfaðri, sterkari og myndarlegri menn eru ekki lengur á meðal vor,“ sagði hann og taldi engan einn lykil að langri ævi.

Yisrael Kristal lætur eftir sig börnin sín tvö, nokkur barnabörn og mörg barnabarnabörn, að því er segir í frétt ísraelska blaðsins Haaretz.

Spánverji nú allra karla elstur

Að Yisrael Kristal gengnum telst Spánverjinn Francisco Núñez Olivera vera elsti karlmaðurinn sem enn gistir þessa Jörð. Hann fæddist 13. desember 1904 og er því 112 ára átta mánuðum betur. 

 

Elsta konan síðasti núlifandi þegn Viktoríu drottningar

Heimsins elsta kona - og þar með elsta núlifandi manneskja á jarðríki - er Violet Brown frá Jamaíku. Hún fæddist 10. mars árið 1900 og er því 117 ára og fimm mánaða gömul. Hún er önnur tveggja núlifandi manneskja sem fæddust á nítjándu öld, hin er sú japanska Nabi Tajima, sem fæddist 4. ágúst 1900. Aðeins fjórar manneskjur hafa orðið eldri en Violet svo staðfest sé og enginn landi hennar hefur áður náð 110 ára aldri svo vitað sé til.  Þegar hún fæddist var Jamaíka enn hluti af breska heimsveldinu, og því telst Violet Brown eina núlifandi manneskjan, sem verið hefur þegn Viktoríu drottningar. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV