Heilt þorp nánast brunnið til grunna

08.01.2016 - 07:29
Þorpið Yarloop í Vestur-Ástralíu er nánast allt í rúst eftir að það varð skógareldi að bráð í nótt. Þar bjuggu 545 manns. Flestallir eru flúnir á brott. Að sögn ástralskra fjölmiðla eru 95 íbúðarhús brunnin, sömuleiðis pósthúsið, meginhluti þorpsskólans, slökkvistöð og byggingar þar sem ýmis fyrirtæki voru til húsa.

Sextán þorpsbúar urðu eftir þegar hópurinn lagði á flótta undan eldinum. Þriggja er saknað. Þá hafa nokkrir slökkviliðsmenn slasast í baráttunni við eldinn. Hann hefur brennt niður um 50 þúsund hektara gróðurlendis á einum sólarhring. Á þessum slóðum er vindhraðinn hátt í 20 metar á sekúndu í hviðum.
Yarloop er um 125 kílómetra suðvestan við borgina Perth.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV