Heilsugæslan fær að dreifa gömlum flensulyfjum

24.02.2016 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lyf við inflúensu eru af skornum skammti og hafa stjórnvöld brugðið á það ráð að heimila heilsugæslustöðvum að dreifa til sjúklinga lyfjum sem runnu út fyrir sex árum.

Margir leita til læknis þessa dagana enda hafa þrjár tegundir af inflúensu lagst á landsmenn og hefur smitum fjölgað mjög síðastliðinn hálfan mánuð. Vegna þessa hafa verið kallaðir til auka læknar og hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og á Læknavaktinni.

„Við höfum fundið fyrir því að það er að þyngjast á síðdegismóttökunni hjá okkur og eins þekki ég til á Læknavaktinni og þar hefur aukist töluvert álagið, hefur verið sett í metu koma þangað,“ segir Oddur Steinarsson, frkvstj. lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Álagið er orðið svo mikið að Landspítalanum að þar hafa menn óskað eftir því að flensusmitaðir leiti í heilsugæsluna og á Læknavaktina. „Við reynum að hafa dyrnar opnar fyrir alla. Það hafa að vísu komið ábendingar frá kollegum um það að það sé líka skynsamlegt að fólk hafi samband símleiðis, að það sé ekki að koma ef það er komið með flensueinkennum og smitandi, að það hafi samband í gegnum síma og fái afgreiðslu þannig,“ segir Oddur. „Flensueinkenni eru hár hiti, beinverkir, höfuðverkur, þurr hósti,“ segir Oddur ennfremur.

Tvö lyf við inflúensu hafa fengist hér, Tamiflu og Relenza og þarf að taka þau innan tveggja sólarhringa eftir að fólk veikist. Tamiflu seldist upp í apótekum fyrir nokkrum dögum en yfirvöld eiga ennþá birgðir frá því að svínaflensan herjaði á landsmenn. Lyfjabirgðirnar runnu úr gildi árið 2010.

„Þær hafa verið testaðar árlega bæði t.d. í Noregi og Danmörku og lyfið er í fullu gildi þó að dagsetningin sé útrunnin og í samráði við sóttvarnalækni að þá erum við tilbúin til að láta þessar pakkningar út til þeirra sem það þurfa,“ segir Oddur.

Guðrún Sigmundsdóttir, settur sóttvarnarlæknir hjá Embætti landlæknis, segir að óhætt sé að nota flensulyfið þótt það sé útrunnið. Lyfið hafi verið stöðugleikaprófað og Lyfjastofnun hafi samþykkt að því verði dreift endurgjaldslaust til sjúklinga á heilsugæslustöðvum. Guðrún segir að inflúensan hafi ekki náð hámarki.

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir