Heildsalar fái högg með tilkomu Costco

15.02.2017 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Ruv.is  -  Costco
Áhrifin af innreið bandaríska heildsölurisans Costco inn á íslenskan markað verða mikil á heildsölu og innlenda framleiðendur, að mati Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Ölgerðin og Sláturfélag Suðurlands vinna nú að samningum við erlenda birgja um lægra innkaupsverð á ákveðnum vörum til heildsölu. 

Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í morgun. Costco opnar verslun sína í Garðabæ í maí. Ólafur segir að þótt Costco muni versla við innlenda birgja verði fyrirtækið í beinum innflutningi á þeim vörum sem þeir selja. Tilkoma Costco þýði því að samkeppni aukist á öllum sviðum. 

Árni Pétur Jónsson, forstjóri 10-11, segir ekki útilokað að hans fyrirtæki muni kaupa vörur af Costco til endursölu. Þá segir Arnar I. Jónsson, hlutabréfagreinandi hjá Hagfræðideild Landsbankans, að smásalar og heildsalar á Íslandi þurfi að huga að sínum málum í ljósi opnunar Costco. Þeir þurfi að ná betri samningum við birgja, bæði innlenda og erlenda. 

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV