Heilbrigðiskerfið: „meira þyrfti til"

03.04.2017 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisfjármálaáætlun mætti vera skýrari, en miðað við undirliggjandi þörf í heilbrigðiskerfinu þyrfti meira fjármagn á næstu árum. Þetta segir forstjóri sjúkrahússins á Akureyri.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára á föstudag. Samkvæmt henni verða útgjöld til heilbrigðismála aukin um ríflega 16 milljarða króna en í þeirri tölu eru framkvæmdir við nýjan Landspítala, tækjakaup og þak á greiðsluþátttöku sjúklinga. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt að raunhækkun á framlögum til rekstrar sjúkrahúsa nemur einungis ríflega 300 milljónum króna.

Jákvæð merki í ríkisfjármálaáætlun

Bjarni Smári Jónasson, forstjóri sjúkrahússins á Akureyri, segir jákvætt að setja eigi aukið fé í heilbrigðiskerfið: „Það er mjög jákvætt þar að það er komið mjög ákveðið þar að byggja nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri sem er mjög brýnt verkefni til lengri tíma litið. Við hefðum gjarnan viljað sjá það fyrr á þessu tímabili en það er núna, það er í lok tímabilsins gert ráð fyrir að það komi inn. Svo er ánægjulegt að það er gert ráð fyrir að halda áfram að setja fé í að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum“.

Meira þarf til

Ríkisfjármálaáætlun mætti vera skýrari, segir hann, því þar er blandað saman fé til reksturs og stofnframkvæmda: „þetta er raunverulega ramminn fyrir málaflokkinn og hann er ekki sundurgreindur á það skýran hátt til að segja nákvæmlega hvað fer í hvað fyrr en fjárlögin koma fram í haust“.

En telur sjúkrahússforstjórinn að áætluð framlög næstu ára dugi til rekstursins? „Miðað við þá þörf sem er undirliggjandi í kerfinu þá þyrfti meira til“.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV