Hegðun formanna FH fyrir aganefnd KSÍ

24.09.2013 - 14:02
Mynd með færslu
Knattspyrnudeild FH á yfir höfði sér refsingu vegna hegðunar formanna deildarinnar eftir leik liðsins gegn Val í úrvalsdeildinni 16. september sl. Framkvæmdastjóri KSÍ hefur sent aganefnd sambandsins erindi þess efnis.

Formennirnir, Jón Rúnar Halldórsson og Lúðvík Arnarson, létu móðann mása við blaðamenn eftir leikinn og sökuðu Börk Edvardsson, formann knattspyrnudeildar Vals, um að taka hluta af sölu leikmanna frá félaginu. Mbl.is birti myndband af uppákomunni.

Jón Rúnar og Lúðvík sendu síðar frá sér opinbera afsökunarbeiðni í yfirlýsingu þar sem þeir harma ummæli sín.

Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ sagði í samtali við RÚV í dag að hann hafi vísað málinu til aganefndar sem taki nú ákvörðun um næstu skref. Búast má við niðurstöðu í fyrsta lagi í næstu viku en aganefnd fundar reglulega á þriðjudögum. 

Heimildir til viðurlaga í slíkum tilfellum eru leikbann eða sekt en þar sem ekki er um að ræða einstaklinga á leikskýrslu eru meiri líkur á að FH verði sektað um einhverja fjárhæð.