HB Grandi: 13,5 milljarða arður á 10 árum

11.04.2017 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson  -  RUV.is
Stjórn HB Granda leggur til að hluthafar fái 1,8 milljarða króna arðgreiðslu fyrir síðasta ár. Það er lægri arðgreiðsla en síðustu þrjú ár. Fyrirtækið hefur greitt hluthöfum sínum 13,5 milljarða króna í arð á síðustu 10 árum.

HB Grandi er stærsta útgerðarfélag landsins, gerir út 3 frystitogara, 4 ísfisktogara og 2 uppsjávarveiðiskip. Félagið hefur verið talsvert í fréttum undanfarið, tók á móti nýjum ísfisktogara á dögunum, Engey RE, bauð út smíði á nýjum frystitogara og tilkynnti um áform sín að loka fiskvinnslu á Akranesi sem hefði kostað hátt í 100 manns vinnunna. Í tilkynningu frá Granda sagði að rekstrarhorfur fyrir botnfiskvinnslu hafi ekki verið lakari í áratugi, útlit væri fyrir tap af landvinnslunni og við því væri félagið að bregðast. Sterku gengi krónunnar væri um að kenna. Félagið ákvað að ganga til viðræðna við sveitarfélagið um uppbyggingu á hafnaraðstöðu í kjölfar harðra mótmæla vegna þessara áforma en þau hafa þó ekki verið slegin út af borðinu. 

Háar arðgreiðslur undanfarin ár

Stjórn Granda hefur boðað til aðalfundar þann 5. maí og leggur til að hluthafar fái 1814 milljónir í arð. Það er lægri arðgreiðsla en í fyrra, þegar hluthafar skiptu á milli sín ríflega 3 milljörðum króna, og árin tvö þar á undan þegar arðgreiðslan nam ríflega 2,7 milljörðum hvort ár. Síðustu 10 ár hefur þrisvar verið greiddur út meiri arður en nú. Samtals nema arðgreiðslur síðustu 10 ára, á verðlagi hvers árs, ríflega 13,5 milljörðum króna sem hluthafar skipta á milli sín eftir stærð eignarhluta. Samkvæmt yfirliti Fiskistofu hefur félagið greitt samtals 4,7 milljarða í veiðigjöld frá fiskveiðiárinu sem hófst 2012, þar til í fyrra. Félagið Vogun á langstærstan hlut í HB Granda, um þriðjungshlut. Hvalur hf á Vogun og stærsti hluthafi Hvals er Fiskveiðihlutafélagið Venus sem Kristján Loftsson, Birna Loftsdóttir og Sigríður Vilhjálmsdóttir eiga að stærstum hlut.

 

Hér að neðan má sjá tilkynningar HB Granda til Kauphallar vegna aðalfunda og arðgreiðslna síðustu 10 ár:

  • Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2017 verði vegna rekstrarársins 2016 greiddar 1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1.814 millj. kr. (um 15,3 millj. evra á lokagengi ársins 2016), eða 3,8% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2016.  Arðurinn verði greiddur 31. maí 2017.  
  • Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2016 verði vegna rekstrarársins 2015 greiddar 1,70 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 3.083 millj. kr. (um 21,9 millj. evra á lokagengi ársins 2015), eða 4,1% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2015.  Arðurinn verði greiddur 29. apríl 2016. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 10. apríl 2015 samþykkir að greidd verði 1,50 kr. á hlut í arð vegna ársins 2014, alls að fjárhæð 2.720.488.085 kr. Arðurinn verður greiddur 30. apríl 2015. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 21. mars 2014 samþykkir að greidd verði 1,50 kr. á hlut í arð vegna ársins 2013, alls að fjárhæð 2.720.488.085 kr. Arðurinn verður greiddur 25. apríl 2014. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 19. apríl 2013 samþykkir að greidd verði 1,00 kr. á hlut í arð vegna ársins 2012, alls að fjárhæð  1.698.033.723 kr. Arðurinn verður greiddur 30. apríl 2013. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 13. apríl 2012 samþykkir að greiddur verði 40% arður af nafnverði hlutafjár (0,40 kr. á hlut) vegna ársins 2011, alls að fjárhæð 679.213.490 kr. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2012. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 29. apríl 2011 samþykkir að greiddur verði 20% arður (0,20 kr. á hlut) vegna ársins 2010, alls að fjárhæð 339.606.745 kr. Arðurinn verði greiddur 13. maí 2011. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 23. apríl 2010 samþykkir að greiddur verði 12% arður (0,12 kr á hlut) vegna ársins 2009, alls að fjárhæð 203.644.047 kr. Arðurinn verði greiddur 7. maí 2010. 
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 3. apríl 2009 samþykkir að greiddur verði 8% arður (0,08 kr á hlut) vegna ársins 2008, alls að fjárhæð 135.762.698 kr. Arðurinn verði greiddur 27. apríl 2009.  
  • Aðalfundur HB Granda hf. haldinn 28. mars 2008 samþykkir að greiddur verði 12% arður (0,12 kr á hlut) vegna ársins 2007, alls að fjárhæð 203.850.535 kr. Arðurinn verði greiddur 28. apríl 2008.