Hátt í 100 börn veiktust eftir skólamáltíð

25.02.2016 - 15:53
Erlent · Asía · Indland · Neytendamál
epa03790727 Indian school girls receive treatment  after suffering from suspected food poisoning in Patna, Bihar, India, 17 July 2013. At least 21 school children have died from suspected food poisoning after eating at a state-run school in eastern India.
 Mynd: EPA
Hátt í eitt hundrað indversk skólabörn voru flutt á sjúkrahús í dag með svæsna matareitrun, að því er virðist. Börnin höfðu snætt hádegisverð í skóla í Palghar-héraði, skammt frá stórborginni Mumbai, þegar þau veiktust hastalega.

Sum börnin eru alvarlega veik, að sögn lögreglumanns sem tók þátt í að flytja þau á sjúkrahús. Að hans sögn byrjuðu þau að kasta upp skömmu eftir hádegisverðinn. Alls þurfti að leggja inn 97 börn á aldrinum sex til fjórtán ára. Sýni voru tekin af matnum sem börnin borðuðu og send til rannsóknar.

Skólinn, þar sem málið kom upp, er í eigu indverska ríkisins. Ríkið sér um það bil  120 milljónum barna fyrir hádegisverði í skólunum. Í mörgum tilfellum er það eina almennilega máltíðin sem þau fá.

Sá böggull fylgir skammrifi að þeir sem sjá um mat handa skólabörnunum standa sig oft ekki í stykkinu. Það gerist því iðulega að börnin veikjast af því að borða illa eldaðan mat sem í er alls kyns óþverri. Fyrir þremur árum dóu yfir tuttugu börn í Bihar ríki af að borða mat sem í var skordýraeitur.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV