Háskóli Íslands með bestu háskólum Evrópu

11.03.2016 - 02:24
Mynd með færslu
Háskóli Íslands - einn af 200 bestu háskólum Evrópu.  Mynd: RUV
Háskóli Íslands er á meðal 200 bestu háskóla Evrópu, samkvæmt árlegu mati breska vikuritsins Times Higher Education (THE) á æðstu menntastofnunum álfunnar. Háskóli Íslands er í 131. - 140. sæti. Oxford-háskóli telst vera bestur, Cambridge næstbestur og Imperial College í Lundúnum er í þriðja sæti. Tækniháskólinn í Zürich í Sviss telst bestur utan Bretlands, hann er í fjórða sætinu, en University College í Lundúnum því fimmta.

THE er vikulegt fylgirit dagblaðsins The Times og fjallar, eins og nafnið bendir til, um allt sem lýtur að æðri menntun. Listinn er unninn upp úr árlegum lista THE yfir háskóla um veröld víða. Við matið á skólunum er horft til kennslugæða, stöðu rannsókna, miðlun þekkingar og umfangs og gæða alþjóðasamstarfs.

Ef marka má þessar niðurstöður eru breskir háskólar öllum evrópskum háskólum fremri, fjórir af fimm bestu og sjö af tíu bestu háskólunum eru breskir, og reyndar eru 46 af 200 bestu háskólum Evrópu í Bretlandi, samkvæmt þessu.

Þjóðverjar eiga 36 háskóla á topp 200, þar af 11 á meðal þeirra 50 bestu. 19 ítalskir háskólar eru á listanum, en aðeins einn þeirra er á meðal þeirra 50 bestu - og er raunar í 50. sætinu.

Karólínski bestur á Norðurlöndum

Á Norðurlöndum skorar Karólínski háskólinn sænski hæst, hann er í 9. sæti, þrátt fyrir allt sem á hefur gengið í tengslum við plastbarkaígræðslur Paolos Macchiarinis. Svíar eiga 11 háskóla á listanum, Finnar og Danir 6 en Norðmenn 4. Háskólinn í Helsinki er samkvæmt þessu næst besti háskólinn á Norðurlöndum, hann deilir 28. sætinu með háskólanum í Glasgow. Kaupmannahafnarháskóli er fjórði besti háskóli Norðurlanda í 33. sætinu, einu neðar en háskólinn í Uppsala, en skörinni ofar en háskólinn í Lundi, sem er í 37. sæti. Oslóarháskóli þykir bestur norskra háskóla, í 63. sæti.

HÍ á pari við Linköping, Bayereuth og Tomsk

Mat Times nær til um 800 háskóla í 70 löndum, en aðeins 22 lönd eiga skóla á meðal þeirra 200 bestu. 100 bestu skólunum er raðað í nákvæma gæðaröð, en seinna hundraðinu er skipt í tíu flokka sem hver um sig telur tíu háskóla, sem ekki er gert upp á milli. 

Samkvæmt matinu er Háskóli Íslands á svipuðu róli og háskólarnir í Aix-Marseille í Frakklandi, Linköping í Svíþjóð, Liége í Belgíu, Bayereuth í Þýskalandi, háskólarnir í Bath og Surrey í Englandi, Írski háskólinn og Læknaháskólinn á Írlandi og Tækniháskólinn í Tomsk í Rússlandi. Aðrir íslenskir háskólar komast ekki á blað. 

Grein Times Higher Education um 200 bestu háskólana og lista yfir þá alla má skoða með því að smella hér.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV