Háskóla í Svíþjóð lokað vegna hótunar

24.01.2016 - 23:42
Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Örebro  -  Örebro Universitet
Ákveðið hefur verið að loka háskólanum í Örebro í Svíþjóð á morgun vegna hótunar um fjöldamorð. Hótunin var nafnlaus en skólayfirvöld taka hana alvarlega.

Á heimasíðu háskólans segir að hótunin hafi verið gerð í gegnum snjallsímaforrit. Skólayfirvöld segjast ekki geta lagt líf nemenda, starfsfólks og annarra á svæðinu í hættu. Í samráði við lögreglu hafi verið ákveðið að loka skólanum.

Hótunin barst í gegnum forritið Jodel sem gerir nemum á sama háskólasvæði kleift að eiga nafnlaus samskipti sín á milli. Forritið er vinsælt í sænskum skólum. Sænska ríkissjónvarpið SVT segir 15 ára stúlku búna að játa fyrir lögreglu að hafa sent hótunina. Þrátt fyrir það vilja skólayfirvöld ekki taka neina áhættu og verður skólinn lokaður á morgun.

Eftir ítrekaðar hótanir í gegnum Jodel forritið hafa stjórnendur þess ákveðið að breyta notendareglum. Ekki verður lengur hægt að gæta nafnleyndar ef það er til þess. Þeir heita samstarfi við sænsku lögregluna í málinu.
Sambærileg hótun barst í háskólanum í Lundi í október. Skólanum var lokað í einn dag en rannsókn leiddi í ljós að hótunin var innantóm.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV