Harðari viðurlög við sýruárásum

17.07.2017 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Stjórnvöld í Bretlandi boða endurskoðun á löggjöf og eftirliti með ætandi efnum eftir að sýruárásum hefur fjölgað umtalsvert þar í landi undanfarin misseri. Maður sem varð fyrir sýruárás í fyrra segir það valda sér sálarangist að vita af því að árásarmaður hans geti fljótlega um frjálst höfuð strokið.

 

Síðastliðinn föstudag voru tveir unglingspiltar handteknir í Lundúnum, grunaðir um að hafa skvett sýru á fimm ókunnugar manneskjur í borginni.
Árás piltanna er ekkert einsdæmi og lögreglan í Lundúnaborg sinnir sífellt fleiri tilfellum þar sem ætandi efni eru notuð til árása.

Árið 2014 fékk lögregla tilkynningar um 166 sýruárásir. Ári síðar, 2015, var tilkynnt um 261 árás og í fyrra fékk lögreglan Bretlandi tilkynningar um 454 sýruárásir, langflestar í Lundúnum. Það stefnir í að þær verði enn fleiri í ár.

Daniel Rotariu er einn þessarra fjögur hundruð fimmtíu og fjögurra. Þáverandi kærasta hans hellti sýru yfir hann á meðan hann svaf. Hann brenndist illa á um helmingi líkamans, var í dái í fimm vikur og missti sjónina á öðru auganu. Rotariu segir það ósanngjarnt að einungis líf fórnarlambsins sé breytt til frambúðar. Hann hrylli við tilhugsuninni að fyrrum kærasta hans losni úr fangelsi fljólega.

 

Refsiramminn er reyndar til staðar en þar til nú hefur hann ekki verið nýttur til hins ýtrasta. Allt að ævilangt fangelsi getur beðið þeirra sem ráðast á aðra með sýru að vopni.

Aðgengi að hinum ætandi efnum er annað sem stjórnvöld vilja jafnframt láta kanna. Þá er einnig til athugunar að flokka ætandi efni sem notuð eru í árásum sem þessum sem vopn.

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV