Hannes Smárason: „Ég neita sök, alfarið“

Flokkar: Innlent
Hannes Smárason kom í fyrsta sinn fyrir dómara í morgun, vegna milljarðafjárdráttarákæru á hendur honum. RÚV-mynd.


  • Prenta
  • Senda frétt

Hannes Smárason bar af sér allar sakir þegar hann mætti í fyrsta skipti fyrir dómara í morgun til að svara fyrir milljarða fjárdráttarákæru sérstaks saksóknara á hendur honum.

Sakaður um næstum þriggja milljarða fjárdrátt

Hannesi er gefið að sök að hafa árið 2005, þegar hann var stjórnarformaður FL Group, dregið sér tæpa þrjá milljarða króna af fjármunum félagsins. Samkvæmt ákæru var féð millifært á reikning Fons og fór þaðan á reikning þáverandi eiganda flugfélagsins Sterling. Í ákærunni segir að millifærslan hafi ekki verið í þágu FL Group og féð hafi verið millifært án vitundar og samþykkis forstjóra, fjármálastjóra og stjórnarmanna FL Group, annarra en Hannesar. Fullyrt hefur verið að millifærslan hafi átt þátt í að Inga Jóna Þórðardóttir og fleiri stjórnarmenn sögðu af sér árið 2005.

Réttarhöldin í nóvember

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar en Hannes, sem býr erlendis, kom í fyrsta skipti fyrir dómara í morgun. Þegar dómarinn bað hann um að taka afstöðu til ákærunnar sagði Hannes: „Ég neita sök, alfarið.“

Hannes fær nokkurra mánaða frest til að skila greinargerð og gert er ráð fyrir að réttað verði í málinu í nóvember. Hannes vék tímabundið úr starfi forstjóra Nextcode eftir að honum var birt ákæran. Nextcode er fyrirtæki sem Íslensk erfðagreining setti á laggirnar til að selja sjúkdómsgreiningar til alþjóðlegra heilbrigðisfyrirtækja.

Inga Jóna ber líklega vitni

Áætlað er að um 25 vitni komi fyrir dóminn, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu er líklegt að þeim verði fækkað eitthvað. Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL Group, og Inga Jóna Þórðardóttir eru á meðal þeirra sem gert er ráð fyrir að beri vitni.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku