„Hann er ómissandi, sem er kostur og galli“

„Vinnusami víkingurinn“, Birkir Bjarnason er lykilmaður á miðju íslenska liðsins og verður eflaust byrjunarliðinu í fyrsta leik lokamótsins í Frakklandi. „Það sést yfirleitt þegar hann er ekki að spila með liðinu,“ segir Kristján Guðmundsson. Leikmenn íslenska liðsins eru settir undir smásjána á Sportrásinni á Rás 2 öll mánudagskvöld fram að lokakeppni EM í Frakklandi.

Birkir Bjarnason

Kristján Guðmundsson, þjálfari Leiknis í knattspyrnu, lagði sitt mat á leikmanninn.  Móðir Birkis, Halla Kr. Halldórsdóttir, og Jóhannes Gunnar Bjarnason, einn af fyrstu þjálfurum hans, lýstu Birki á yngri árum.

„Hann þóttist aldrei heyra í okkur þegar við vildum skipta honum út af og fljótlega hættum við að reyna að skipta honum út af,“ sagði Jóhannes Gunnar Bjarnason sem þjálfaði Birki þegar hann spilaði með yngri flokkum KA áður en hann flutti til Noregs. „Sem keppnismaður þegar við vorum að spila í þessum flokki þá hljóp hann bara helmingi meira en næst yfirferðarmesti maðurinn; hann bara var þannig týpa,“ sagði Jóhannes.

Mynd með færslu
 Mynd: Siguróli M. Sigurðsson

Birkir átti erfitt með að sætta sig við lítinn æfingartíma í hans flokki þegar fjölskylda hans flutti til Noregs en þar er æft mun sjaldnar í viku en á Íslandi. „Ég man eftir því þegar ég fór á foreldrafund, fyrsta árið sem við vorum hérna (í Noregi). Þá sagði einn pabbinn á fundinum „þessir strákar eru ekkert að reyna að komast í Viking (Stavanger)“.  Þá varð ég soldið foj yfir þessu því að Birkir minn stefndi alltaf á Viking og ekkert annað,“ rifjaði Halla Kr. Halldórsdóttir, móðir Birkis upp. „Hann var í frjálsum, hann var í handbolta, hann fór aðeins í sund, hann tók þátt í ýmsum íþróttum og hann var mjög góður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann er ákafur og fljótur að læra og tók vel tiltali þegar þjálfarinn ræddi við hann.“

Kristján Guðmundsson, sérstakur sérfræðingur Sportrásarinnar í nærmyndunum af landsliðsmönnunum, telur Birki gífurlega mikilvægan landsliðinu. „Hann er ekkert sérstaklega fljótur, tekur menn ekki mikið á og engar sérstakar fyrirgjafir en við munum sakna hans ef hann spilar ekki.  Það sést yfirleitt þegar hann er ekki að spila með liðinu,“ var meðal þess sem Kristján sagði.