Hamingja fjölskyldunnar fyrir mestu

22.01.2016 - 19:06
Aðalatriðið er að fjölskyldan sé hamingjusöm segir Khattab Almohammad, einn sýrlensku flóttamannanna sem komu til Íslands á þriðjudag. Hann segir að draumurinn sé að lifa í friði og öryggi.

Íslenska þýðingu viðtalsins hér að ofan má sjá neðar á síðunni.

Khattab, eiginkona hans, móðir og sex börn bjuggu í Aleppo áður en borgarastríðið hófst í Sýrlandi. Þaðan flýðu þau til Líbanons áður en þau fengu hæli hér þremur árum síðar.

Hann segir að það hafi verið erfið ákvörðun að fara til Íslands en að móttökurnar hafi verið góðar og fyrir það sé hann þakklátur. Draumar fjölskyldunnar séu hófsamir, að koma börnunum í skóla og komast í vinnu til að sjá fyrir fjölskyldunni. „Ef þú hefðir verið með okkur þegar börnin fóru að skíða hefðirðu séð hversu kát þau voru. Þetta er aðalatriði. Ef fjölskyldan og vinir þínir eru hamingjusöm er ástandið gott. Þetta er það sem við leitum eftir, að vera hamingjusöm og lifa góðu lífi.“

Khattab segir að Akureyri sé minni en þær borgir sem fjölskyldan eigi að venjast en íbúarnir vingjarnlegir og hjálplegir. Systkin Khattabs hafa dreifst á fimm lönd eftir að stríðið hófst. „Það var mjög erfitt að fara því sumir í fjölskyldunni urðu eftir,“ segir Nofa Al Kasoum, móðir hans. 

Framundan eru viðræður til að reyna að koma á friði í Sýrlandi, sem Khattab bindur vonir við að beri árangur. „Við vonum það. Ég vona að við, Sýrlendingarnir á Íslandi, tökum afstöðu og sýnum vilja okkar um að friðarviðræðurnar fari fram. Stríð er slæmt fyrirbæri og eyðir öllu í okkar fallega Sýrlandi. Ég vona því að þeir hugsi með höfðinu til tilbreytingar og finni leið til að koma á friðsælu lífi.“

Viðtalið í heild sinni

Uppreisnin hófst í Aleppo árið 2012 eftir að hafa staðið í ár í Homs og Deir Al. Þá byrjaði fólk að fara í mótmælagöngur gegn stjórninni. „Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru mjög slæm. Þau fóru að skjóta og drepa fólk. Dag einn höfðu sveitir sem ég veit ekki hverjar voru hertekið hverfið þar sem ég bjó. Stjórnarherinn byrjaði að varpa sprengjum á okkur með stórskotaliði og flugvélum. Ástandið var því slæmt. Þú hafðir ekki val um að vera áfram, annað hvort að berjast með andstöðunni eða stjórnarhernum. Það er slæmt í báðum tilfellum, flestum Sýrlendingum er illa við að drepa nokkra lífveru, jafnvel skordýr.“ Khaddad sagði yfirvöld hafa þekkt sig frá fornu fari fyrir andstöðu og handtekið hann. „Leynilögreglan spurði mig hvort ég hefði tekið þátt í mótmælunum eða hefði skipulagt þær. Ég flýði til annarra borga, Raqqa og svo Homs. Síðar fann ég mann sem hjálpaði mér að fara til Líbanons. Ég fór fyrst einn en eftir mánuð hafði ég fundið skjól svo ég gat sótt fjölskyldu mína. Við vorum fjögur ár í Líbanon.

Versnaði þegar á leið

Miklar breytingar urðu á aðstöðu fjölskyldunnar og annarra flóttamanna í Líbanon eftir að leið á stríðið. „Í byrjun var auðveldara að lifa í Líbanon en síðar varð. Landamærin stóðu opin þeim sem flýðu borgarastríðið, bardagana í borgum Sýrlands. Síðar tóku sumir líbanskir aðilar afstöðu með sýrlensku ríkisstjórinni, sérstaklega Hisbollah sem nýtur stuðnings Írans. Þeir ákváðu að Sýrlendingar yrðu að hafa innlenda menn í ábyrgð fyrir sig og borga 200 dollara fyrir dvölina. Í flestum tilfellum á fólk ekki svo mikinn pening. Ástandið versnaði mikið í Líbanon. Fjölskyldan mín var kannski heppin að finna skjól og fá hjálp hjá Alþjóða krossinum. Það bjargaði okkur. Annars hefði fólk dáið vegna þess að það hefði ekki vinnu, börnin komast ekki í skóla, allt sem blasir við er eyðing. Við þessar aðstæður getur maður ekkert gert, sérstaklega ekki með níu manna fjölskyldu eins og mína. Síðar var mér sagt að fjölskylda mín hefði verið valin til að flytjast til Íslands. Í fyrstu var það áfall. Við skildum þetta ekki i alveg og spurðum: Hvar er Ísland? Hversu fjarri Sýrlandi er það því við hugsum okkur alltaf að snúa aftur til Sýrlands. Síðar komumst við að því að það væri í norðrinu og mjög kalt. Manneskjan sagði okkur að það væri góður staður til að búa á með góðu og indælu fólki. Eftir miklar samningaviðræður, spurningar og að hafa skoðað þetta á netinu ákvað ég að flytja hingað.“

Kalt í Sýrlandi en ekki svona kalt

Fimbulkuldi var á Akureyri þegar flóttamennirnir lentu þar á þriðjudagskvöld. „Veðráttan er mikil breyting fyrir okkur. Það var ekki svona kalt í Sýrlandi eða Líbanon. Veturnir eru kaldir hjá okkur en ekki svona kaldir. Þegar við komum til Parísar sagði Linda, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, að það væri kaldara þar en á Íslandi en veðrið var hefðbundið fyrir París. Það þótti okkur gott. Þegar við komum til Íslands var allt þakið snjó. Við fórum í dag í skoðunarferð um borgina og lékum í snjónum. Það er ekki jafn slæmur kuldi og við ímynduðum okkur. Það er kalt en ekki erfitt.

„Í sannleika sagt þótti okkur mjög áhugavert hversu hlýjar móttökur við fengum bæði frá stjórnvöldum og almenningi. Það gladdi okkur að hitta þetta góða fólk. Þó við værum þreytt fyrstu tvo dagana, og sváfum mikið um nóttina. Síðustu tveir dagar hafa verið góðir. Við höfum hitt margar stuðningsfjölskyldur. Við fórum í skoðunarferð um borgina. Hún er lítil í samanburði við þær borgir sem við þekkjum en hún er full af hlýlegu fólki sem veitir okkur stuðning.“

Fjölskyldan dreifist á mörg lönd

Aðspurður hvernig honum sé innanbrjósts eftir að fjölskyldan kom til Íslands, fjarri heimaslóðum, svarar Khattab: „Ef þú hefðir verið með okkur þegar börnin fóru að skíða hefðirðu séð hversu kát þau voru.  Þetta er aðalatriði. Ef fjölskyldan og vinir þínir eru hamingjusöm er ástandið gott. Þetta er það sem við leitum eftir, að vera hamingjusöm og lifa góðu lífi.“

Borgarastríðið hefur valdið ómældum þjáningum og fjölskyldur dreifst víða. „Það er ekki bara mín fjölskylda heldur margar sýrlenskar fjölskyldar sem hafa dreifst víða um heim. Ef við tökum fjölskyldu mína sem dæmi á ég bræður í Tyrklandi, einn í Líbanon og í Sýrlandi á ég tvær systur, einn bróðir er í Þýskalandi. Við erum á Íslandi. Það er erfitt að ná sambandi við hvert annað og lifa eins og við gerðum áður.“

Hugsi vonandi með höfðinu

Framundan eru viðræður stríðandi fylkinga í Sýrlandi. Þar verður reynt að stilla til friðar. „Ég vona að við, Sýrlendingarnir á Íslandi, tökum afstöðu og sýnum vilja okkar um að friðarviðræðurnar fari fram. Stríð er slæmt fyrirbæri og eyðir öllu í okkar fallega Sýrlandi. Ég vona því að þeir hugsi með höfðinu til tilbreytingar og finni leið til að koma á friðsælu lífi,“ segir Khattab. 

„Nú, draumur okkar eins og flests venjulegs fólks er hógvær, við viljum menntun fyrir börn okkar, vinnu til að sjá fyrir fjölskyldum okkar og ég vona að við finnum þetta hérna. Ég vona líka að stríðinu í Sýrlandi ljúki og fái notið þessara sömu drauma, að fá vinnu og styðja fjölskyldu sína.“

„Spurningin sem við spyrjum okkur alltaf er hvers vegna stjórnmálamenn heims hafa hljótt um hið glæpsamlega framferði í Sýrlandi. Það er alls staðar fólk sem vill styðja við bakið á flóttamönnum en þetta er ekki svarið heldur að koma einræðisherranum frá völdum.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV