Halldór Valur stýrir Litla Hrauni og Sogni

18.01.2016 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldór Valur Pálsson, 35 ára stjórnmálafræðingur, hefur verið skipaður forstöðumaður Litla Hrauns og fangelsins Sogni. Hann tekur við af Margréti Frímannsdóttur sem hætti í lok nóvember. Halldór Valur sótti einnig um starfið fyrir 7 árum þegar Margrét fékk starfið - þá skipuð af Birni Bjarnasyni, þáverandi dómsmálaráðherra.

Fram kemur á vef Fangelsismálastofnunar að Halldór Valur hafi starfað hjá stofnuninni frá árinu 2004, síðast sem öryggisstjóri. „Hann hefur komið að mörgum verkefnum hjá stofnuninni á þessum tíma og hefur yfirgripsmikla þekkingu á fangelsismálum og verkefnum stofnunarinnar.“

Þá segir enn fremur að Halldór Valur hafi borið ábyrgð á rekstri samfélagsþjónustu, umsjón og innleiðingu rafræns eftirlits, fjölmörgum verkefnum á sviði öryggismála innan fangelsanna, umsjón með dags- og skammtímaleyfum fanga og viðbragðsáætlanagerð. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV