„Hallbera segir og gerir ótrúlegustu hluti“

16.07.2017 - 10:13
Það var létt yfir landsliðskonunum Fanndísi Friðriksdóttur og Hallberu Guðnýju Gísladóttur sem mættu á reiðhjólum ásamt landsliðsþjálfaranum Frey Alexanderssyni og fjölmiðlafulltrúa KSÍ á fyrsta fjölmiðlafund landsliðsins á EM í Hollandi í morgun.

Aðspurð um hver væri mesti sprelligosinn í hópnum var Fanndís Friðriksdóttir ekki lengi að benda á herbergisfélaga sinn, vinstri bakvörðinn Hallberu Guðnýju Gísladóttur. 

„Ef tónlistin er góð er ég að stjórna“

„Hún situr hérna við hliðina á mér,“ sagði Fanndís og hélt áfram. „Það er Hallbera, engin spurning. Ég held að allir séu sammála um það. Henni dettur í hug að segja og gera ótrúlegustu hluti. Við höfum öll gaman af því.“

Hallbera sjálf gat alveg tekið undir þetta mat. „Það er að minnsta kosti aldrei leiðinlegt á herberginu okkar. Þó að við verðum hér til 6. ágúst hef ég engar áhyggjur af móralnum. Hann mun haldast góður.“

Hallbera og Fanndís urðu saman Íslandsmeistarar með Breiðabliki 2015 en Hallbera spilar í dag með Djurgården í Svíþjóð.

Aðspurð hvort að það væri hún sem stjórnaði tónlistinni fyrir æfingar og á hótelinu var Hallbera fljót að svara.

„Ef að tónlistin er góð er það ég sem er að stjórna.“

Svör Hallberu og Fanndísar af fjölmiðlafundinum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður