Hálf milljón fyrir að leigja einkabílinn út

22.02.2016 - 12:44
„Bókanir í janúar voru sjöfalt fleiri en í sama mánuði í fyrra. Það er mest verið að bóka fyrir næsta sumar,“ segir Viktor Þórisson, framkvæmdastjóri Carrenters.is. Fyrirtækið hefur milligöngu um að leigja bíla sem eru í eigu einstaklinga til ferðamanna. Viktor segir að bíleigandi geti fengið um hálfa milljón króna í sinn hlut fyrir að leigja bílinn sinn út yfir sumartímann.

Carrenters.is, sem er svokölluð einkabílaleiga, hóf starfsemi í byrjun árs 2013 og segir Viktor að útleiga hafi stöðugt aukist líkt og annars staðar í hinu sívaxandi deilihagkerfi. Viktor segir leiguna löglega með öllu, enda hafi lög verið samþykkt á Alþingi í fyrra sem skýrðu réttindi og skyldur þeirra sem að leigunni koma.

Viktor segir ferlið frekar einfalt. Eigandinn búi til reikning á carrenters.is og skrái bílinn sinn þar með myndum og helstu upplýsingum.

„Við höfum svo samband við tryggingafélag viðkomandi og fáum samþykki fyrir því að bifreiðin fari í útleigu. Það sem getur komið í veg fyrir samþykki er fyrst og fremst vanskil við tryggingafélagið. Eigandinn þarf svo að svara fyrirspurnum og afhenda bílinn. Þegar leiga fer fram þarf svo að skrá bílinn í útleiguflokk hjá Samgöngustofu. Það er hægt að gera rafrænt,“ útskýrir Viktor.

CarRenters tekur svo við greiðslunni og geymir hana fram yfir leigutímann, þegar eigandinn fær hana greidda. Fyrirtækið tekur 20% þóknun auk 3% fæslugjalds. Eigandi bílsins ákveður sjálfur leiguverðið, sem Viktor segir nokkuð misjafnt.

„Fólksbílar sem eru leigðir á í kringum 10.000 krónur á dag hafa verið að fullbókast yfir sumartímann og skila eigendum 400 til 500 þúsund krónum yfir sumarið. Jepplingar eru oft að fara á 14 þúsund krónur á dag og þeir eru að skila eigendum á bilinu 500 til 700 þúsund krónum yfir sumarið. Sá bíll sem mest hefur verið leigður fyrir næsta sumar er sjö manna jeppi sem hefur verið bókaður fyrir rúma milljón.“

Ekki eldri en 15 ára

Viktor bendir á að einstaklingum sé heimilt að afla allt að einni milljón króna á ári án þess að greiða virðisaukaskatt. Hins vegar þurfi að greiða 20% fjármagnstekjuskatt af leigutekjunum. Þá segir Viktor að sérstakt áhættuálag bætist á iðgjald hjá tryggingafélögunum, það nemi um 1.000 krónum fyrir hvern dag sem bifreiðin sé í útleigu.

„Sjálfábyrgð ökumanns nemur 250.000 krónum ef hann er valdur að tjóni og ef bíllinn er í kaskó gildir það einnig. CarRenters er svo með kredikortaupplýsingar leigjandans og gengur á kortið ef þarf.“

Viktor segir að ákveðin skilyrði séu sett varðandi gæði bílanna. Þeir megi til dæmis ekki vera eldri en 15 ára.

„Svo þarf að passa að dekk séu nýleg og að bílilinn sé skoðaður. Við mælum líka með því að eigendur fari með bílana í skoðun áður en leiga hefst að sumri til og að farið sé yfir öll helstu öryggismál,“ segir Viktor.

CarRenters er með rúmlega 100 bíla á skrá en Viktor segir að vöntun sé á bílum, þá sérstaklega jeppum. CarRenters er ekki eina fyrirtækið sem sér um leigu á einkabílum hér á landi, á meðal annarra slíkra fyrirtækja má nefna Viking Cars og Caritas.

 

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV