HAL sigraði í hönnunarkeppni HÍ

06.02.2016 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson  -  RÚV
Lið HAL sigraði í Hönnunarkeppni véla-og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fram fór í dag. Keppnin er, eins og undanfarin ár, hluti af UT-messunni sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu um helgina. Vinningsliðið skipa þau Hólmfríður Hannesdóttir og Atli Þór Sveinbjarnarson og hlutu þau 400 þúsund krónur í verðlaun.

Liðið 2 init 2 finis, sem skipaði þá Ásgeir Barkarson og Steinarr Hrafn Höskuldsson, hlaut 100  þúsund króna verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson  -  RÚV

 

Team Sprakk varð í öðru sæti. Liðið skipa Kristján Theodór Sigurðsson, Hlynur Árni Sigurjónsson og Sólrún Traustadóttir. Liðið fékk 300 þúsund krónur í verðlaun. 

Þriðja sætið kom í hlut liðsins Bjárna, skipað þeim Árna Sturlusyni og Birni Jóhanni Þórssyni. Þeir fengu 200 þúsund krónur í verðlaun. 

Markmið keppninnar er sem fyrr að hanna faratæki sem farið getur yfir fyrir braut og leyst ýmsar þrautir á leið sinni að endastöð. RÚV tók upp keppnina í ár, eins og síðustu ár, og verður hún sýnd í sjónvarpinu. 

Í færslu á vef háskólans um keppnina kemur fram að til að fá fullt hús stiga þurfi farartækið að þrýsta á takka vinstra megin á brautinni. „Ef ýtt er á takkann detta fjórar borðtenniskúlur úr röri fyrir ofan tækið. Farartækið þarf að grípa kúlurnar og koma þeim fram hjá tveimur veggjum á brautinni og skila í trekt við hægri hlið brautar. Þarnæst þarf að komast fram hjá regnhliði eb hægt er að keyra yfir stálgrind sem er beint undir hliðinu. Þegar komið er fram hjá því þarf farartækið að þrýsta á takka á hægri hlið brautarinnar sem gefur frá sér hljóð. Brautinni lýkur svo með því að ýta þarf golfkúlu inn um gat á vegg við enda hennar og við það kviknar ljós".

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV