Hagvöxtur 4,3% í ár

17.02.2017 - 10:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hagvöxtur verður 4,3 prósent í ár og þrjú prósent á því næsta, samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar sem gefin var út í morgun. Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri.

 

Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 5,9 prósent árið 2016 en spáð er að hún aukist um 4,3 prósent í ár. Einkaneysla er talin hafa aukist um 7 prósent árið 2016 en gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9 prósent á þessu ári. Talið er að fjárfesting hafi aukist um 22,7 prósent árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6 prósent árið 2017 en úr henni dragi eftir það. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.

Verðbólga hefur í þrjú ár verið undir markmiði Seðlabankans og ef húnæðisliður neysluverðsvísitölunnar er ekki talinn með hefur hún nánast staðið í stað. Reiknað er með að verðbólga aukist nokkuð árin 2017 og 2018 en víki ekki verulega frá verðbólgumarkmiði.

Breyting launa hefur verið í samræmi við fyrri spár og sæmilega friðvænlegt á vinnumarkaði framundir árslok 2016. Langvinnt sjómannaverkfall og möguleg endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur nokkra óvissu í för með sér, samkvæmt spánni.

 

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV