Hagur Írana vænkast

17.01.2016 - 21:44
Iran's President Hassan Rouhani gestures at the conclusion of his press conference, in Tehran, Iran, Sunday, Jan. 17, 2016. The implementation of a historic nuclear deal with world powers is expected to pave the way for a new economic reality in Iran
 Mynd: AP
Búist er við að hálf milljón tunna af hráolíu berist daglega á markað frá Íran nú þegar búið er að aflétta refsiaðgerðum eftir fullgildingu kjarnorkusamnings stórveldanna og stjórnvalda í Teheran.

Að sögn alþjóðaorkumálastofnunarinnar IEA eiga Íranar miklar birgðir sem hægt er að setja á markað þegar í stað, eða 38 milljónir tunna. Búist er við miklu streymi fjármagns til Írans á næstunni, en nú geta Íranar losað mikið fé sem fryst var á erlendum bankareikningum.

Breska blaðið Independent segir að Íranar geti strax fengið 21 milljarð sterlingspunda, jafnvirði um 3.900 milljarða króna. Samkvæmt írönskum miðlum eiga þeir meira en þrisvar sinnum meira fé á erlendum reikningum.  

Hassan Rouhani, forseti Írans, segir að landsmenn eigi að nota þetta fé og erlendar fjárfestingar til efnahagsuppbyggingar í landinu, auka atvinnu og bæta lífskjör borgaranna eftir tímabil mikillar verðbólgu og atvinnuleysis.