Hagnýt ráð gegn matarsóun á heimilum

03.02.2017 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talið er að hver Íslendingur hendi að meðaltali 23 kílóum af nýtilegum mat á ári, 39 kílóum af ónýtilegum mat, helli niður 22 kílóum af matarolíu og fitu og 199 kílóum af drykkjum. Þetta er niðurstaða úr heimilishluta rannsóknar Umhverfisstofnunar á matarsóun sem kynnt var fyrr í vetur.

Það eru margir með hálfgert samviskubit yfir því hve mikill matur fer til spillis á heimilinu. Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistari gefur í Kastljósi nokkur hagnýt ráð við því hvernig hægt er að nýta matinn betur og hvernig best sé að geyma hann. 

Fjölskyldan þarf að vinna saman

Dóra bendir á mikilvægi þess að allir í fjölskyldunni séu með í því hvernig á að draga úr matarsóun. Sísvangir unglingar geti til að mynda lært að útbúa ágætis millimál síðdegis úr afgöngum gærkvöldsins. Eins sé um að gera að elda ekki of mikið. Auk fjölda annarra gagnlegra ráða á vefnum Matarsóun er þar skammtareiknivél sem hægt er að styðjast við, en Dóra bendir á að fjölskyldur séu ólíkar og fólk þurfi að vera vakandi fyrir því hvort alltaf verði afgangur af sama matnum. Á sumum heimilum sé til að mynda alltaf búið til of mikið salat. Þá sé betra að útbúa minna salat eða passa að geyma afganginn rétt.

Borgar sig að raða rétt í ísskápinn

Til að afgangar verði ekki ógirnilegir borgar sig að geyma þá rétt, ekki blanda þeim saman og merkja hvenær þeir eru settir í ísskápinn. Dóra bendir á að það sé mikilvægt að ísskápurinn sé hreinn, lykt skemmi hratt út frá sér. Þá þurfi að huga að því að hitastigið í ísskápnum sé rétt, raða ekki of þétt í hann og setja elstu vörurnar í ísskápnum fremst.