Hagnaður Arion banka 49,7 milljarðar

24.02.2016 - 19:34
Höfuðstöðvar Arion banka og bílastæðið fyrir utan.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Arion banki hagnaðist um 49,7 milljarða á síðasta ári. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá bankanum. Þar segir enn fremur að afkoman beri þess glögg merki að nokkur umfangsmikil mál hafi verið leidd til lykta en bankinn seldi hluti í fimm félögum - Reitum, Eik, Símanum og Refresco Gerber og Bakkavör Group.

 

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4% á árinu samanborið við 10,7% árið 2014. Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20% milli ára.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 24,3 milljörðum króna og eykst verulega milli ára. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til virðishækkunarinnar á eignarhluta í Bakkavor Group Ltd.

Umtalsverðar virðisbreytingar urðu á lánabók bankans á árinu. Niðurfærslur tengjast að mestu lánum til erlendra félaga í þjónustu tengdri olíuleit og lánum sem bankinn yfirtók frá AFL – sparisjóði á árinu. Hækkanir tengjast að mestu uppgreiðslu lána, bæði einstaklinga í tengslum við leiðréttingu ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja í tengslum við endurskipulagningu og sölu.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok ársins 2015 var 24,2% en var 26,3% í árslok 2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar króna. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 23,4% samanborið við 21,8% í árslok 2014.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV