Hafró undirbýr skip sín

28.01.2016 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Niðurstaða fundar útgerðarmanna í uppsjávarveiðum og Hafrannsóknarstofnunnar er sú að yfirgnæfandi líkur eru á að farið verði í annan loðnumælingarleiðangur. Nú fer fram athugun á hvenær skipin geti lagt af stað en fundurinn fór fram nú síðdegis. Forsvarsmenn útgerðanna funda með ráðherra á mánudag. Útgerðin kallar eftir rannsóknum í þeirri von að mælingar á stofnstærð loðnunnar sýni að tilefni sé til að gefa út meiri kvóta. Hafrannsóknarstofnun tekur undir málflutning útgerðarmanna að hluta.

 Þorsteinn Sigurðsson, sviðstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknarstofnunnar segir allar mælingar benda til þess með nokkurri vissu að stofninn sé á bilinu 500.000 – 800.000 tonn. Nýjar mælingar geti vissulega leitt af sér aukinn kvóta en þær geti allt eins leitt til þess að endurskoðuð stærð loðnustofnsins feli í sér ákvörðun um minni kvóta. Um það hafi útgerðarmenn og stofnunin rætt og geri allir aðilar sér grein fyrir þeirri stöðu. Það sé ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum fyrirfram. 

Ekki hefur komið til tals að breyta aflamarksreglum til fyrra horfs til að auka kvótann enda segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að mikil samstaða sé um að fylgja nýju aflamarksreglum sem Hafrannsóknarstofnun notar. Hún sé mjög sambærileg við þær reglur sem notaðar eru við úthlutun kvóta úr Barentshafi og byggi vottun loðnuafurðanna á henni.

Áherslur útgerðarmannanna eru skýrar

Gunnþór Ingason forstjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað segir gífurlega hagsmuni tengjast loðnuveiðum og fagnar niðurstöðu fundarins. Hann segir viðbrögð Hafrannsóknarstofnunnar jákvætt skref í þróun málsins en á heimasíðu Síldarvinnslunnar kemur fram að almennt séu menn sammála um að nýta loðnustofninn með sjálfbærum hætti hér eftir sem hingað til. Aldrei megi falla í þá gryfju að láta krónur og aura ákveða nýtingu úr fiskistofnum. Í því sambandi þurfi ávallt að byggja á eins góðum rannsóknagögnum og unnt er að nálgast hverju sinni. Viðbrögð Hafrannsóknarstofnunar eru í takt við þann málflutning, að ekki sé slakað á við rannsóknir á loðnustofninum.