Hafnarfjarðarbær vill kaupa St. Jósefsspítala

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson  -  RÚV
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ræðir á miðvikudaginn tillögu um að farið verði í viðræður við ríkið um kaup á hlut þess í St. Jósefsspítala. Þá felst í tillögunni að bærinn leysi húsið til sín. Þetta kemur fram á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að undanfarna mánuði hafi staðið yfir viðræður milli Hafnarfjarðarbæjar og fjármálaráðuneytisins um framtíð bygginga St. Jósefsspítala. Á sama tíma hafi fasteignirnar verið auglýstar til sölu af hálfu ríkisins. Beiðni bæjarstjórnar um að skipa forvalsnefnd sem fyndi fasteignunum nýtt og viðeigandi hlutverk hafi verið synjað.

Þá kemur fram að það sé óásættanlegt að húsin standi áfram auð og brýnt að starfsemi komist aftur í þau. Með þessari tillögu vilji bæjarstjórn tryggja að bærinn fái forræði yfir framtíðarhlutverki Suðurgötu 41 og 44 og að það verði í þágu nærsamfélagsins. Kaupum bæjarins á eignarhlut ríkisins yrði fylgt eftir með stofnun forvalsnefndar um framtíðarnýtingu fasteignanna.

St. Jósefsspítali hefur staðið auður í fjögur ár en þá var rekstri spítala þar hætt.