Hafnarfjarðarbær fær jafnlaunamerki

13.08.2017 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarfjarðarbær
Velferðarráðuneytið hefur veitt Hafnarfjarðabæ vottað jafnlaunamerki og er bærinn fyrsta sveitarfélagið sem fær slíka vottun. Bærinn uppfyllir nú jafnlaunastaðal. Hann á að tryggja að allar ákvarðanir um laun og starfskjör séu skjalfestar, rökstuddar og hægt að rekja þær. Kveðið er á um verklagsreglur og vinnulýsingar sem eiga að tryggja að launaákvarðanir endurspegli að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg störf.

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, segir í fréttatilkynningu frá bænum að það hafi verið mikið átak að fara í gegnum þá vinnu sem þurfti til að fá vottunina. „Fyrir utan hið augljósa, að vottunin tryggir jöfn laun óháð kyni, þá er hún um leið verkfæri til að viðhalda góðum aga við þessar ákvarðanir.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV