„Hafði mikil áhrif á Madonnu og Britney“

Kylie Minogue
 · 
Lestin
 · 
Popptónlist
 · 
Menningarefni

„Hafði mikil áhrif á Madonnu og Britney“

Kylie Minogue
 · 
Lestin
 · 
Popptónlist
 · 
Menningarefni
21.05.2017 - 16:30.Jóhannes Ólafsson.Lestin
Ástralska söngkonan Kylie Minogue hefur ekki verið áberandi undanfarin ár en ýmsir telja hana þó einn áhrifamesta tónlistamann síðustu áratuga.

„Eitt það skemmtilegasta við Kylie er hvað hún hefur breytt um stefnu oft á ferlinum,“ segir Elías Þórsson, tónlistarblaðamaður og Kylie-aðdáandi. Kylie Minouge á sér langan feril þrátt fyrir að vera aðeins 48 ára gömul. Hún var barnastjarna í sjónvarpi, hefur samið tónlist með Emiliönu Torrini, hlotið æðstu heiðursorðu bresku krúnunnar og sigrast á brjóstakrabbameini svo fátt eitt sé nefnt. Hún er mest seldi tónlistamaður Ástrala frá upphafi samkvæmt Australian Recording Industry Association og hefur selt yfir 80 milljónir platna um heim allan.

Nágranninn sem varð að poppstjörnu

Ferill Kylie hófst snemma í Ástralíu þegar hún lék hina smekkbuxnaklæddu Charlene Robinson í sápuóperunni Nágrönnum.

Mynd með færslu
 Mynd: Nágrannar
Kylie í hlutverki Charlene í Nágrönnum.

Hún vakti síðar athygli tónlistarframleiðenda um miðjan níunda áratuginn og var fengin til þess að syngja tyggjókúlupopp. Hún hreifst svo með Trip Hop-bylgjunni um miðjan tíunda áratuginn þegar hún gaf út plötuna Impossible Princess árið 1997, sem Elías segir vera undir talsverðum áhrifum frá Björk. 

Kylie flytur smell sinn Can't Get You Out of My Head á Brit tónlistarverðlaununum, og blandar við það smellnum Blue Monday eftir hljómsveitina New Order.

Í kringum aldamótin náði tónlistarferill Kylie miklu flugi, ekki síst með útgáfu plötunnar Fever árið 2001. „Það er eiginlega byrjunin á endurvakningu diskósins,“ segir Elías en á plötunni var meðal annars ofursmellurinn „Can't get you out of my head“. „Í gegnum allan tíunda áratuginn var enginn að spá í diskói. En ef þú hlusta á lög eins og „Love at first sight“, það er bara Nile Rogers gítarsánd- og grúv. Í rauninni sama sánd og Daft punk eru að vinna með meira en áratug seinna.“ Elías segir að platan hafi haft mikil áhrif á poppheiminn og sérstaklega hljóm stóru poppdívanna eins og Madonnu og Britney Spears, en fái sjaldan þá viðurkenningu sem hún á skilið.

Kylie Minogue fékk Emilíönu Torrini til liðs við sig til að semja lagið Slow.

Vanmetin stjarna?

Kylie hefur verið meðal stærstu poppstjarna samtímans og unnið með þekktu tónlistarfólki eins og Nick Cave og Emilíönu Torrini. En hvenær skyldi hún fá þá viðurkenningu sem hún á skilið fyrir listrænt framlag sitt til poppsins? „Ég er nátturulega alltaf að berjast fyrir því, vonandi bara hlustar fólk á þennan þátt og fattar það,“ segir Elías og hlær við. „En hún er stærð innan þessarar flóru en samt þessi gleymda stærð. Mikið af poppstjörnum í dag eru ekki að semja tónlistina sína, en Kylie kemur mikið að tónlistinni sjálf,“ segir Elías að lokum.

Lestin fékk Elías Þórsson í heimsókn til að ræða endurreisn diskó-tónlistar, trip-hop tilraunir, hið angurværa popp og arfleifð Kylie.