Hafa brugðist í að búa fólki mannsæmandi líf

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið hafa náð þessum mikla styrk vegna þess að stjórnvöld í arabaheiminum hafa brugðist borgurum sínum. Þau eru spillt, andlýðræðisleg og hunsa mannréttindi. Þetta segir Rami Khouri, sérfræðingur hjá American University í Beirút. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda tekur undir þetta að mörgu leyti og telur ástandið eiga eftir að versna nokkuð áður en það fer að batna.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa náð mikilli og öflugri fótfestu í Miðausturlöndum og ekki hlaupið að því að finna leiðir til að brjóta þau á bak aftur. Þau virðast hafa stigið inn í það tómarúm sem hefur myndast með algeru tengslaleysi stjórnvalda við borgarana, sama hvert litið er í arabaheiminum. Þau hafa brugðist í því að búa almenningi gott líf og skilið borgarana eftir algerlega vanmáttuga og oft í mikilli fátækt. Þetta fyrirkomulag hafi haldist fram að lokum kalda stríðsins, en þá hafi komið brestir í það þegar almenningur hóf að krefjast aukinna réttinda.

En eitt er stríðsrekstur á heimavelli, annað hryðjuverk í öðrum löndum. Hver er hugsunin á bakvið þau? Parísarárásina til dæmis? Magnús Þorkell segir áróðursvél ISIS á samfélagsmiðlum mjög sterka og þannig nái samtökin til ungra manna í Evrópuríkjum sem eru utangarðs og finna sér þarna málstað til að berjast fyrir.

 „Þeir eru einmitt að reyna að fá fólk til sín til baka sem hefur farið til Evrópu...Þeir vilja draga fram það versta í Evrópumönnum, fordóma og hatur á múslimum.“ 

 Flestir þeirra fjölmörgu sem hafa flúið til Evrópu frá þessu svæði undanfarið, eru einmitt að flýja ISIS og afleiðingar stríðsins. En eins og hefur sýnt sig bæði í Köln og í Helsinki, þar sem ungir karlmenn úr hópi hælisleitenda fóru um í hópum á gamlárskvöld og áreittu konur, rændu og beittu ofbeldi – þá er verulegur menningarmunur þarna og sumir vilja jafnvel meina að hann sé óyfirstíganlegur. 

 „Það eru mörg dæmi víðsvegar um heim þar sem múslimar hafa aðlagast hinum og þessum þjóðfélögum, ef þeir telja sig velkomna, geta fundið störf og þess háttar...Íslam hefur verið í Evrópu í þúsundir ára þannig að það tilheyrir evrópskri menningu.“

 

Margir eru vonlitlir um frið í Sýrlandi, ekki síst Sýrlendingar sjálfir. Magnús segir tímabil óreiðu og ófriðar vera að ganga yfir arabaheiminn og ástandið eigi enn eftir að versna áður en það fer að batna aftur. Það er því ekki að sjá að friður komist á í bráð og uppbygging geti hafist.

Magnús Þorkell flytur fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands þriðjudag 12. janúar kl. 12:00 á vegum Alþjóðamálastofnunar, MARK – Miðstöðvar margbreytileika- og kynjarannsókna, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum (RIKK) og Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands. Þar fjallar hann um uppgang og hugmyndafræði Íslamska ríkisins (ISIS) og svarar því hvernig stríðin í Írak og Sýrlandi hafa mótað starfsemi samtakanna og hvaða tengsl þau hafa við trúarbragðasögu Mið-Austurlanda. Þar fjallar hann einnig um hugmyndir ISIS um stríð, réttlæti, þjóðríkið og stöðu kvenna. Þá beinir hann sjónum að áróðri ISIS á samfélagsmiðlum og því hvernig sú heimsmynd tengist kynþáttafordómum nútímans.

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós