Hættir sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar

07.01.2016 - 14:50
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
 Mynd: RÚV
Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur störf í utanríkisráðuneytinu í apríl sem sérstakur erindreki stjórnvalda varðandi málefni hafsins.

Jóhann, sem er sjávarlíffræðingur, hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun frá árinu 1981, sem forstjóri frá 1998. Hann fór árin 1996 til 1998 með auðlindamál í utanríkisráðuneytinu og var jafnframt aðalsamningamaður Íslands varðandi deilistofna í Norður-Atlantshafi.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að undanfarin ár hafi alþjóðlegt samstarf og umræða um málefni hafsins aukist mjög og það kalli á aukið samstarf og samhæfingu hvað varðar fyrirsvar Íslands á alþjóðavettvangi. Starf Jóhanns felst í að samræma verkefni varðandi málefni hafsins sem heyra undir fjögur ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanrikisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið og leiða samstarfsvettvang ráðuneytanna á þeim vettvangi. Einnig að taka þátt í starfi á alþjóðavettvangi og sinna stefnumótun stjórnvalda í málefnum hafsins. 

Þar með lætur Jóhann af störfum sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar, en stofnunin verður sameinuðu Veiðimálastofnun 1. júlí næstkomandi undir heitinu Haf- og vatnarannsóknir. Auglýst verður eftir forstjóra nýju stofnunarinnar um næstu helgi.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV