Hætti vegna titrings á lögreglustöðinni

16.02.2016 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grímur Grímsson, sem stýrði rannsókn héraðssaksóknara á lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hætti afskiptum af rannsókninni að eigin ósk þann 29. janúar. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Hann segir Grím hafa hætt eftir að embættinu barst ávæning af því að titringur væri á lögreglustöðinni við Hverfisgötu um að hann væri tengdur Aldísi Hilmarsdóttur og Karli Steinari Valssyni, fyrrverandi yfirmönnum fíkniefnadeildarinnar, vinaböndum.

Visir.is greindi fyrst frá málinu í dag. Þar var fullyrt í fyrirsögn að Grímur hefði verið færður til.

Ólafur Þór segir að Grímur hafi verið yfirmaður sviðsins sem hafi þessi verkefni á sinni könnu. Hann hafi hætt afskiptum af rannsókninni 29. janúar. Daginn áður hafði héraðssaksóknari kallað lögreglufulltrúann, sem grunaður er um brot í starfi, til fyrstu skýrslutökunnar - þá voru liðnir 17 dagar frá því að málið kom inn á borð héraðssaksóknara frá ríkissaksóknara.

Ólafur vildi ekki svara því hvort Grímur hefði verið viðstaddur þá skýrslutöku. 

Hann segir að tveir aðrir rannsakendur hafi borið hitann og þungan af rannsókninni en Grímur hafi annast skýrslutökur þegar annar þeirra var leyfi. 

Ólafur segir að embætti héraðssaksóknara hafi fengið ávæning af því að einhver titringur væri innan lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu vegna tengsla Gríms við Aldísi og Karl Steinar. Þau eru bæði fyrrverandi yfirmenn fíkniefnadeildar og því einnig fyrrverandi yfirmenn lögreglufulltrúans sem grunaður er um brot í starfi.  

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, færði Aldísi til í starfi undir lok síðasta mánaðar án samráðs við hana. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Aldís óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun.

Ólafur tekur þó skýrt fram að Grímur hafi ekki verið vanhæfur samkvæmt lögum - hann hafi óskað eftir því að vera leystur undan starfsskyldum sínum varðandi þetta mál og við því hafi verið orðið samdægurs. 

Ólafur vildi ekki gefa upp hvernig þessi titringur hefði birst - hvort honum eða öðrum hjá embættinu hefði borist einhver bréf frá einhverjum úr yfirstjórn lögreglunnar eða öðrum starfsmönnum. „Ég get ekkert tjáð mig um það.“

Hann sagðist ekki geta sagt hvort þessi titringur, sem þeir hefðu haft ávæning af, hefði komið sér á óvart.  Ef einhver minnsti grunur vaknaði að þessi tengsl Gríms kynnu hugsanlega að hafa haft áhrif á skýrslutökur í tengslum við rannsókn málsins væri hægur leikur að fara yfir yfirheyrslurnar þar sem þær væru teknar upp bæði í hljóð og mynd.

Rannsókn héraðssaksóknara beinist hvorki að Aldísi né Karli Steinari. Önnur rannsókn er þó í gangi en hún er hjá embætti ríkissaksóknara. Sú beinist gegn lögreglumanni sem er grunaður um brot í starfi og sat í gæsluvarðhaldi skömmu fyrir áramót. Þeirri rannsókn stýrir Ásgeir Karlsson, fyrrverandi yfirmaður hans hjá fíkniefnadeild lögreglunnar.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV