Hætta á ferðum ef íbúðaverð lækkar

08.09.2017 - 09:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólk með yfirveðsettar eignir gæti komist í hann krappan ef fasteignaverð lækkar að ráði. Í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að skuldir heimilanna hafa vaxið hraðar en hrunárið 2008.

Níu þúsundir íbúðir vantar á næstu árum til þess að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði að því er fram kemur í skýrslu sjóðsins. Una Jónsdóttir sérfræðingur hjá sjóðnum segir að ástæðu þess að skuldir heimilanna vaxi hraðar nú en 2008 vera þá að fólk þurfi að taka hærri lán til þess að geta keypt: 

„Þetta verður varasamt ef að við sjáum fasteignaverð allt í einu taka upp á því að lækka eitthvað aftur og fólk gæti setið eftir með yfirveðsettar eignir eins og gerðist í síðustu efnahagskreppu.“

Hækkun leiguverðs að undanförnu er meiri en hækkun launa, að því er fram kemur í skýrslu sjóðsins. Að auki hefur ávöxtun leigu minnkað það er að segja það er óhagkvæmara að leigja út en var. Í húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð aukin áhersla á byggingu leiguíbúða:

„Við munum sjá allt yfir 3000 íbúðir, sem sagt leiguheimili, á næstu árum, sem að verða sérstakar íbúðir fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum þar sem það getur búið í öruggu leiguhúsnæði til framtíðar.“

Una var gestur í Morgunútvarpi rásar 2 þar sem meðal annars kom fram að fasteignaverð hefur hækkað 22 sinnum hraðar en byggingarkostnaður síðustu tólf mánuði. Þessi munur þýðir að arðbærara verður að byggja nýjar íbúðir og því ætti íbúðaframboð að aukast:

„En með auknu framboði þá vonandi aukast möguleikar allra á að geta keypt.“

Þá sjáum við neytendur kannski stýra þessu að einhverju leyti, þeir halda að sér höndum á kaupum því þeir sætta sig ekki við svo há verð?

„Já, það gæti alveg verið að við sjáum það gerast akkúrat núna. Svo líka bara hefur ástandið verið þannig að fólk hefur bara verið svolítið að þenja sig til þess að kaupa. Af því að það er til dæmis mjög mikið óöryggi á leigumarkaði. Þess vegna sjáum við líka skuldir heimilianna fara vaxandi sem að er eitthvað til þess að vera vakandi yfir.“