Hæstiréttur stöðvar loftslagsáætlun Obama

10.02.2016 - 09:20
epa05061125 U.S President Barack Obama meets with a small group of veterans and Gold Star Mothers to discuss the Iran Nuclear deal in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, September 10, 2015.  EPA/Olivier Douliery
 Mynd: EPA  -  ABACA PRESS POOL
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur stöðvað áætlun Barack Obama um að draga úr losun koltvísýrings frá raforkuverum í Bandaríkjunum. Hæstiréttur úrskurðaði að áætlun forsetans um hreina orku gæti ekki komist í gagnið fyrr en búið væri að úrskurða í lögsóknum andstæðinga áætlunarinnar.

Raforkuver sem brenna kolum eru helstu sökudólgar í útblæstri mengunar í Bandaríkjunum sem veldur loftslagsbreytingum. Áætlun Obama Bandaríkjaforseta kveður á  um að draga úr losun mengandi lofttegunda um 32 prósent fyrir 2030 og taka upp endurnýjanlega orkugjafa.  

Þessi áætlun forsetans var hryggjastykkið í þeim fyrirheitum sem Bandaríkin gáfu í samningaviðræðunum í París í fyrra um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Forsetinn kynnti áætlunina í ágúst í fyrra þar sem sett eru markmið um hvað hvert ríki Bandaríkjanna eiga að minnka mikið útblástur koltvísýrings, en ríkin sjálf eiga að koma með tillögur um hvernig þau dragi úr menguninni.

Hópur 27 ríkja, kolanámur og raforkufyrirtæki hafa reynt að söðva áætlunina og kært fyrir dómstólum að hún sé afskipti af innri málefnum einstakra ríkja. Áfýjunardómstóll vísaði málinu frá, en hæstiréttur úrskurðar nú að loftlagsáætlun Bandaríkjaforseta verði frestað þar til búið sé að afgreiða kærurnar. 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV