Hæstiréttur staðfestir sýknudóm yfir VR

03.03.2016 - 22:08
Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms þar sem stéttarfélagið VR var sýknað af kröfum Söru Lindar Guðbergsdóttur, fyrrverandi starfsmanns VR. Sara Lind fór fram á tvær milljónir króna í skaðabætur frá félaginu vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í starfi sínu hjá VR.

Dómurinn var einróma um að uppsögnin hafi ekki verið ólögmæt en klofnaði í afstöðu sinni til eineltismálsins. Tveir dómarar af þremur töldu að hægt væri að gera athugasemdir og aðfinnslur við framkomu Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR í garð Söru. Framkoman hafi hins vegar ekki verið af nógu alvarleg til að réttlæta bætur. Þriðji dómarinn taldi hins vegar að þar sem um stéttarfélag væri að ræða þyrfti að gera ríkari kröfur en ella.

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV