Hæstiréttur staðfestir frávísun héraðsdóms

20.03.2017 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Hæstiréttur hefur staðfest frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á kröfu Ólafs Ólafssonar, um að viðurkennt yrði með dómi að skilyrði væru fyrir endurupptöku al-Thani málsins. Eftir stendur að krafa Ólafs um að úrskurður endurupptökunefndar um að hafna endurupptökubeiðni hans verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Ólafur skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2017. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur, það er að ákvörðun um endurupptöku máls væri á hendi endurupptökunefndar. Þótt dómstólar geti fellt úrskurði nefndarinnar úr gildi þá gætu þeir ekki tekið nýja ákvörðun í málinu eins og krafa Ólafs fól í sér. Því vísaði Hæstiréttur kröfunni frá.

Ólafur krafðist þess einnig fyrir héraði að úrskurður endurupptökunefndar um að hafna endurupptökubeiðni hans yrði tekin til efnislegrar meðferðar. Á það féllst Héraðsdómur Reykjavíkur í janúar. Í úrskurði héraðsdóms er vísað til hæstaréttardóma og komist að þeirri niðurstöðu ekki hægt sé að undanskilja ákvörðun endurupptökunefndar frá endurskoðunarvaldi dómstóla. 

Hæstiréttur dæmdi Ólaf í 4 1/2 árs fangelsi í febrúar 2015  og þyngdi þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desember 2013 um eitt ár. Ólafur leitaði til endurupptökunefndar að dómi kveðnum því hann taldi að mikilvæg sönnunargögn væru rangt metin. Þá hélt hann því fram að tilteknir dómarar væru vanhæfir vegna tengsla ættingja þeirra við slitastjórn Kaupþings. Endurupptökunefnd hafnaði beiðni Ólafs.