Hæstiréttur: Kaupþingsmenn greiði milljarð

18.02.2016 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa  -  RÚV
Hæstiréttur dæmdi í dag fimm fyrrum stjórnendur Kaupþings til þess að greiða Hildu, dótturfélagi Seðlabankans, tæpan milljarð króna vegna skuldar í tengslum við kaup þeirra á jörð við laxveiðiána Langá í Borgarfirði.

Fimmmenningarnir eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson og Steingrímur Páll Kárason. Þeir stóðu að eignarhaldsfélaginu Hvítsstöðum sem tók lán fyrir jarðarkaupunum hjá SPRON árið 2005. Lánið fluttist til Dróma og þaðan til dótturfélags Seðlabankans.

Fimmmenningarnir töldu sig ekki þurfa að greiða lánið, í það minnsta ekki að fullu. Ein ástæðan væri forsendubrestur. Gengið hafi verið út frá því við undirritun lánssamningsins að verðmæti jarðarinnar stæði undir endurgreiðslu lánsins. Það hafi ekki reynst raunin heldur hafi höfuðstóllinn nánast þrefaldast en á sama tíma hafi verðmæti jarðarinnar rýrnað. Fimmmenningarnir sögðu að staða þeirra sem lántakenda væri ekki sambærileg við stöðu lánveitandans. Þannig hefði SPRON haft allt aðra möguleika en fimmmenningarnir og félag þeirra til að dreifa og meta áhættu sína.

Héraðsdómur féllst ekki á þessi rök fimmmenninganna í dómi sínum í apríl í fyrra og hæstiréttur staðfesti þann dóm í dag.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV