Hæstiréttur í Danmörku tekur fyrir mál Primera

21.03.2016 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Hæstiréttur í Danmörku hefur ákveðið að taka fyrir mál íslenska flugfélagsins Primera Air en það snýst um bótagreiðslur til 18 danskra farþega vegna tafa á ferðum félagsins. Flugfélagið telur að „óvenjulegar aðstæður“ hafi valdið töfunum og þess vegna beri því ekki að greiða bætur. Málið gæti haft mikið fordæmisgildi, ekki bara í Danmörku heldur í Evrópu.

Fjallað var um málið í  dönskum fjölmiðlum í gær.  Fram kemur á vef TV2 að málið  tengist fjórum ferðum á vegum íslenska flugfélagsins sem hafi tafist - þrjár vegna tæknilegra vandamála og ein þar sem hurð í farangursgeymslu varð fyrir skemmdum. 

Primera var í nóvember 2014 dæmt til að greiða farþegunum 18 bætur eftir að dómstól komst að þeirri niðurstöðu að tafirnar hefðu ekki verið af völdum „óvenjulegra aðstæðna“. Upphæðin sem flugfélaginu var gert að greiða var á milli 200 og 600 evrur til hvers farþega.

Í umfjöllun TV2 segir að niðurstaðan í málinu gæti haft áhrif á mál fjölmargra farþega í Danmörku sem hafa reynt að sækja bætur fyrir dómstólum vegna tafa hjá flugfélögum. Talsvert er í húfi en þar hafa meðal annars verið stofnuð sérstök fyrirtæki sem sérhæfa sig í að sækja slíkar bótagreiðslur til flugfélaganna.

Per Henriksen, sem er í forsvari fyrir Dansk Luftfart, hefur áhyggjur af þessari þróun. „Ef það fer að verða dýrt fyrir flugfélögin að vera sein getur það komið niður á öryggi farþegana,“ segir hann í samtali við Rizau-fréttaveituna. Hann vildi þó ekki tjá sig um mál Primera Air.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenska flugfélagið er fjölmiðlaefni í Danmörku. Í febrúar 2013 var nokkuð ítarleg umfjöllun í Kontant, neytendaþætti DR, um réttindi farþega þegar flugi þeirra seinkar. Í þættinum var rætt við farþega sem taldi að flugfélagið hefði brotið á rétti sínum.

Þá komst Samgöngustofa að þeirri niðurstöðu í desember á síðasta ári að Primera ætti að greiða tveimur farþegum samtals um 800 evrur í bætur. Þeir voru að koma frá Tenerife en voru um sólarhring á leiðinni heim.