Hæstiréttur hafnar kröfu Landsnets

18.05.2017 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem hafnað var kröfu Landsnets um aðfarargerð vegna umráðatöku er varðar hluta af línustæði fyrir Kröflulínu 4.

Þetta er 10 kílómetra löng spilda, úr óskiptu landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, undir háspennulínu ásamt 35 möstrum og línuvegi.

Landsnet krafðist þess að umrætt land yrði tekið úr vörslum landeigendanna með beinni aðfarargerð og afhent fyrirtækinu. Tveir úr hópi landeigenda mótmæltu kröfu Landsnets og endaði deilan fyrir Héraðsdómi, sem dæmdi landeigendum í vil 6. apríl. Landsnet áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar 11. apríl, sem nú hefur staðfest dóm Héraðsdóms.