Hærra verð en ekki nógu hátt

19.03.2017 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grásleppuvertíðin hefst á morgun en sjómenn eru ósáttir við það verð sem kaupendur eru reiðubúnir að greiða fyrir aflann. Fyrstu tilboð hljóðuðu upp á 110 og 150 krónur fyrir hvert kíló. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að verðið þurfi að hækka. „Ég hef nú trú á því að það komi nú en það þarf örugglega að þrýsta meira á þá.“

 

Örn segist vita að mun færri byrji á grásleppu á morgun en höfðu ráðgert það. Menn bíði eftir að verðið sem fæst fyrir grásleppuna hækki. Örn segist hafa fengið þær upplýsingar í gær að menn væru reiðubúnir að greiða 165 krónur á kíló. Það sé í rétta átt en ekki nóg. „Það er alls ekki ásættanlegt. Við þurfum að fá meiri hækkun heldur en það. Það er mjög mikilvægt að það verði. Þróunin hefur verið þannig í löndunum í kringum okkur, til dæmis í Noregi og Nýfundnalandi, að þeir eru nánast hættir að stunda grásleppuveiðar vegna þess að verðið hefur verið svo lágt.“

 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV