Hækkaðu í tækinu - einsmellur frá MARRS

07.03.2016 - 16:06
Með því að smella á bláa „play“ takk hér fyrir ofan má heyra þáttinn. Á mánudögum fram að páskum ætlum við að einbeita okkur að listamönnum sem náðu einu sinni í gegn með „RisaStórsmell“ en aldrei aftur. Það væri lygi ef ég segði að þetta ágæta fólk hefði ekki reynt að komast aftur á toppinn en hlustendur vildu bara ekki hlusta. Erlendis gengur þessi hópur tónlistarmanna undir heitinu One hit wonders en á íslensku köllum við þá oftast einsmellunga.

Við heyrum einhverja skemmtilega einsmelli í Eldhúsverkum kvöldsins næstu mánudaga ásamt því að heyra eina sögu af einhverjum skemmtilegum einsmellungi.

Í kvöld heyrðum við söguna af hljómsveitinni MARRS sem gaf aðeins út eina smáskífu en sú smáskífa sló  í gegn og sumir segja að einsmellurinn, „Pump up the volume“ hafi haft gífurleg áhrif á dansvorið góða sem hófst seint á níunda áratug síðustu aldar.

En vissir þú að þessi „hljómsveit“, MARRS var samstarfsverkefni tveggja hljómsveita sem voru ekkert að fikta við danstónlist áður en lagið kom út og að þessar tvær sveitir þoldu ekki hvora aðra og gátu ekki unnið saman.