Hægt að læra af árásunum í Kaupmannahöfn

05.03.2016 - 18:34
Mynd með færslu
Lögreglulið á vettvangi árásanna í Kaupmannahöfn í febrúar 2015  Mynd: RÚV
Sambandsleysi varð milli sjúkraliðs og lögreglu í hryðjuverkaárásunum í Kaupmannahöfn í fyrra, segir danskur yfirlæknir bráðaþjónustu, um lærdóminn af árásunum. Hér á landi hefur Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð sannað gildi sitt, segir framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans.

14. febrúar í fyrra var einn myrtur og þrír særðir í skotárás við menningarhús á Austurbrú í Kaupmannahöfn. Nokkrum klukkustundum síðar var einn myrtur og tveir særðir í skotárás við samkomuhús gyðinga í borginni. Lögreglan felldi svo árásarmanninn um nóttina í skotbardaga. 
„Þetta atvik, skotárásin við samkunduhúsið, þá voru bráðaliðar næstum of fljótir á vettvang. Við brugðumst við á fáeinum sekúndum. Það þýðir að skjótt er náð til þeirra sem hafa þörf fyrir aðstoð en viðbrögðin eru svo snör að starfsfólk okkar lenti í hættu. Við skoðum það núna. “ segir Peter Anthony Berlac yfirlæknir utanspítalaþjónustu í Kaupmannahöfn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Peter flytur fyrirlestur á Bráðadeginum, sem haldinn var í gær

 

Sambandsleysi á vettvangi

Á fjölsóttum fyrirlestri Peter Anthonys um lærdóminn af árásunum á ráðstefnunni Bráðadeginum á vegum Landspítalans í gær kom fram að í grunninn stóðst viðbragðskerfið vel álagið en margt megi betrumbæta, sérstaklega samskipti og samvinnu heilbrigðiskerfisins og lögreglu. Samskiptin gangi alla jafna hratt og vel, segir Peter, en ekki á þessari ögurstundu. „Á ögurmínútunum áttum við í stökustu vandræðum með að ná beinu sambandi við lögregluna eins og við erum vön. Og lögreglan var afar upptekin við að elta brotamanninn og að fá heildarsýn á ástandið.“
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans segir að Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð yrði samskiptavettvangurinn hér á landi ef svona atburðir gerðust.  „Þar eru allir viðbragðsaðilar. Þú ert ánægð með fyrirkomulagið eins og það er? Já, það hefur alla vega sannað gildi sitt. “

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV