Hægt á afnámi kvótakerfis

19.02.2016 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afnám kvóta í mjólkurframleiðslu verður ákveðið tvö þúsund og nítján frestast og stuðningur við landbúnað eykst tímabundið um 900 milljónir á næsta ári, samkvæmt nýjum búvörusamningi. Formaður Bændasamtakanna og landbúnaðarráðherra segja kerfið verða ódýrara og skilvirkara.

Samningurinn var undirritaður í dag. Hann gildir í tíu ár frá næstu áramótum og felur í sér miklar breytingar á stuðningskerfi bænda þó þær gerist hægar en útlit var fyrir. Meðal annars verður ákvörðun um afnám kvóta í mjólkurframleiðslu ekki tekin fyrr en árið tvö þúsund og nítján. Á móti verður frjálst framsal kvóta óheimilt. Þá verður einnig hægt á afnámi beingreiðslna í sauðfé.

„Það sem við erum að gera með þessu er að koma okkur út úr stuðningi sem ekki hefur verið skilvirkur. Það hefur verið mikill kostnaður á bak við hann, hann hefur eigngerst í sumum tilvikum og gengið kaupum og sölum,“ sagði Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands.

„Ef að menn þurfa ekki að kaupa sér greiðslumark í kindakjöti eða mjólkurkvóta til að hefja framleiðslu þá er það stór þröskuldur sem er tekinn burt,“ segir Sigurður Ingi Jóhansson landbúnaðarráðherra.

Sindri segir að með samningnum sé brugðist við þeirri gagnrýni að mikið af stuðningnum fari til þeirra sem séu að hætta búskap, eða í vaxtagreiðslur. „Með því að komast á þessum tíma út úr þessu náum við að minnka þann kostnað mjög verulega.“

Framlög ríkisins til landbúnaðarins aukast um 900 milljónir króna á næsta ári, en fara svo aftur lækkandi. Sigurður Ingi segir þá fjármuni fara í ýmsar nýjungar, til að mynda aukinn stuðning við lífræna framleiðslu, nautakjötsframleiðslu og geitfjárrækt. Ríkisframlög hafi þó farið úr fimm prósentum í eitt prósent af landsframleiðslu síðustu þrjátíu árin. „Og ég sé fyrir mér að stuðningur á hverja framleidda einingu muni halda áfram að lækka á næstu árum.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV