Hægir á vexti kortaveltu

15.07.2017 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Hlutfallslegur vöxtur á kortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi hefur ekki verið minni síðan 2012. Þetta segir á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar. Í maí síðastliðnum nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1 prósent en í krónum talið eykst kortavelta um 1,4 milljarða. Á vef RSV segir að meginsástæðan á minni vexti sé vafalítið sterkt gengi krónunnar.

Í maí er verðhækkun á ýmissi ferðaþjónustu töluvert hóflegri en fyrr á árinu. Þannig greindi RSV frá því í mars að ofan á þá gengistyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegri nú bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis, segir í tilkynningu RSV.

Bandaríkjamenn eyða hér mestu ef marka má tölur um kortaveltu. Í maí eyddu þeir rúmum átta milljörðum króna sem er 22,5 prósentum meira en í maí í fyrra. Kortavelta Breta nam tæplega tveimur milljörðum en Kínverja rúmlega þrjú hundruð milljónum. Tekið er fram að tölurnar ná ekki yfir kortaveltu á mann eftir þjóðerni og því ekki ljóst hvaða þjóð eyðir hér hlutfallslega mestu.

Sjá tilkynningu RSV hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV