Gylfi: Gríðarlega mikilvæg þrjú stig

05.03.2016 - 21:37
Manchester United's Morgan Schneiderlin, right, fights for the ball against Swansea City's Gylvi Sigurdsson during the English Premier League soccer match between Manchester United and Swansea City at Old Trafford Stadium, Manchester, England,
Gylfi Sigurðsson í baráttunni við Morgan Schneiderlin.  Mynd: AP
Gylfi Þór Sigurðsson var ákaflega kátur með sigur Swansea í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gylfi skoraði sigurmarkið gegn Norwich og er Swansea nú að fjarlægjast fallbaráttuna.

„Þetta eru gríðarlega mikilvæg þrjú stig. Þau skipta miklu máli því við vorum aðeins sex stigum fyrir ofan Norwich fyrir leikinn og núna höfum við níu stiga forystu. Það er þó mikið eftir og við þurfum að byggja á því sem við höfum gert í síðustu tveimur sigurleikjum. Það eru níu leikir eftir af leiktíðinni og það sést á úrslitunum að það geta allir unnið alla í þessari deild,“ sagði Gylfi í samtali við heimasíðu Swansea.

Gylfi hefur verið frábær að undanförnu í liði Swansea og hefur skorað átta mörk á leiktíðinni. Markið í dag var það sjötta í síðustu níu leikjum og hefur íslenski landsliðsmaðurinn verið lykilmaður í uppgangi Swansea að undanförnu.

„Sigurinn gegn Arsenal gaf okkur mikið sjálfstraust og við héldum hreinu í dag sem er frábært. Þetta lítur mun betur út hjá okkur en fyrir leikinn gegn Arsenal. Við þurfum að vinna fleiri leiki og komast fyrir 40 stig í deildinni.“

Sjá má viðtalið við Gylfa hér að neðan.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður