Gylfi ekki strax klár í 90 mínútna leik

18.08.2017 - 15:29
Everton's new signing Gylfi Sigurdsson watches the match against Hajduk Split during their Europa League Play-Off, First Leg soccer match at Goodison Park in Liverpool, England, Thursday Aug. 17, 2017. (Nigel French/PA Wire/PA via AP)
Gylfi fylgdist með úr stúkunni í gærkvöld þegar Everton vann 2-0 sigur á Hajduk Split frá Króatíu í umspili fyrir Evrópudeildina.  Mynd: AP
Gylfi Sigurðsson mun koma við sögu í öllum þremur leikjum Everton í næstu viku en hann er þó ekki ennþá tilbúinn í að spila heilan leik. Gylfi og Ronald Koeman knattspyrnustjóri Everton sátu saman fyrir svörum á fjölmiðlafundi í Liverpoolborg í dag vegna vistaskipta Gylfa frá Swansea.

Þurfti þolinmæði

Koeman fór ekkert í felur með það að hann hafi lengi reynt að klófesta Gylfa. „Stundum þarf maður að sýna meiri þolinmæði en maður vildi,“ sagði Hollendingurinn sem kvaðst hafa verið mjög létt eftir að kaupin voru gengin í gegn. 

Gylfi lykilmaður hjá Everton

Koeman segir að hann líti á Gylfa sem lykilmann í Evertonliðinu, hans hlutverki verði að skapa mörk. Stjórinn segir að Gylfi muni spila með liðinu í öllum þremur leikjum þess í næstu viku. Everton sækir Man City heim á mánudagskvöld, Hajduk Split til Króatíu í umspili Evrópudeildarinnar á fimmtudag og þriðji útileikurinn í röð verður gegn Chelsea á sunnudeginum 27. ágúst.

Sjálfur viðurkennir Gylfi aðspurður að hann sé ekki tilbúinn í að spila allar 90 mínúturnar í leik alveg strax. „En ég hef æft mjög vel í 5-6 vikur síðan ég kom úr fríi. Ég þarf samt að ná nokkrum mínútum inni á vellinum áður en ég verð klár í 90. mínútur.“

Kaup Everton á Gylfa áttu sér langan aðdraganda og sjálfur segir Gylfi að þessi langa bið hafi reynt á andlegu hliðina. Hann er ánægður með að þessu sé loksins lokið.

Gylfi ræddi um myndina sem bróðir hans birti á Twitter af honum frá árinu 2001 þegar hann æfði með krakkaliði Everton og var boltastrákur í úrvalsdeildarleik hjá Everton.

„Þar sem ég stóð svona nálægt hliðarlínunni í þeim leik var upplifunin sterk að vera svona nálægt hliðarlínunni. Þá vissi ég að ég vildi verða úrvalsdeildarleikmaður þegar ég yrði eldri.“

Gylfi dásamar Rooney

Gylfi var spurður út í liðsfélaga sinn Wayne Rooney sem Everton fékk á frjálsri sölu frá Man Utd á dögunum. Gylfi hrósaði Rooney í hástert og sagði hann ekki fá það hrós sem hann á skilið.

Hér er hægt að sjá fjölmiðlafundinn í heild sinni.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður